145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

afgreiðsla EES-máls og hugsanlegt brot á stjórnarskrá.

[12:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að ég hafi heyrt rétt að hæstv. forsætisráðherra sagði að fólk væri hér að tala um framsalsákvæði og að það þyrfti að vanda sig við slíkt ákvæði, ekki væri hægt að flana að neinu í þeim efnum, það þyrfti að hugsa það. Það er búið að hugsa þetta í mörg, mörg ár. Ég er búin að sitja 50 fundi, eða voru þeir 45? Og menn segja alltaf Framsóknarflokkurinn — ég hef sjaldan séð fólk anda jafn léttilega eins og þegar Framsókn sagði: Nei, við viljum ekkert framsalsákvæði. Það var búið að ræða það, ræða allt um það, fram og aftur til baka. Ekki segja mér að ekki sé hægt að finna hérna framsalsákvæði sem hægt væri að leggja fram eftir hálftíma þess vegna. Og það væri faglega unnið, hæstv. forsætisráðherra.