145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:35]
Horfa

Hanna Birna Kristjánsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég vil, vegna þess að við greiðum nú atkvæði um nefndarálit meiri hluta hv. utanríkismálanefndar, láta þess getið í framhaldi af umræðunum hér að hv. utanríkismálanefnd fór mjög vel yfir málið. Málið er búið að vera hér í þinginu frá árinu 2012. Það var síðast í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í fimm mánuði þar sem menn fóru gaumgæfilega, og ég vil þakka þeirri nefnd fyrir þá vinnu, yfir öll álitamálin sem þessu tengdust. Að reyna að halda því fram í umræðunni að verið sé að hraða málinu í gegnum þingið eru náttúrlega alger öfugmæli. Ég vil líka frábiðja mér dóma eins og hér voru fram settir af hv. þm. Birgittu Jónsdóttur um það að hér séu menn meðvitað að brjóta stjórnarskrána. Þvílík firra. Það hefur verið farið yfir málið af hálfu tveggja hv. þingnefnda, það er enginn hér sem greiðir atkvæði með þeim hætti að segja já, sem sú sem hér stendur gerir, sem telur að hann sé að brjóta stjórnarskrána. Ég frábið mér slíkan málflutning og bið hv. þingmann um að hafa það bara fyrir sig.