145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessari umræðu kristallast svolítið merkileg staða sem hér er uppi. Hópur fólks í flokki sem hefur stutt að við klárum aðildarviðræður við Evrópusambandið, gerir það og hefur gert það á þeirri forsendu að við viljum standa keik sem fullvalda sjálfstæð þjóð í samstarfi á pari við aðrar Evrópuþjóðir, greiðir ekki atkvæði með þessu. Hér ætla síðan framsóknarmenn og sjálfstæðismenn í salnum að leggjast kylliflatir fyrir því að fá yfir okkur Evrópuverkið án þess að eiga sæti við borðið. Þeir eru tilbúnir að brjóta stjórnarskrána til þess. Þetta er munurinn á þessum flokkum, Samfylkingunni og síðan aftur Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki þegar kemur að Evrópumálum. Okkur er ekki sama um stjórnarskrána. Við viljum sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar á meðan hinir (Forseti hringir.) eru tilbúnir að brjóta stjórnarskrá, leggjast kylliflatir fyrir Evrópuverkinu.