145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

ákvarðanir EES-nefndarinnar um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

681. mál
[12:44]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Áhyggjur mína af þessu máli hafa aukist eftir að heyra ræðu hv. þm. Frosta Sigurjónssonar sem virðist halda að það sé til almenn heimild í stjórnarskrá Íslands til þess að framselja vald til Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt tveggja stoða lausn. Það er ekkert slíkt almennt vald í stjórnarskrá Íslands. (Gripið fram í.) Það er algjörlega ljóst af viðvörunarorðum prófessorsins að hún telur að hér sér of langt gengið. Og sama segir Stefán Már Stefánsson, að þessi tveggja stoða lausn gangi of langt. Það er engin almenn heimild til að fela þetta Eftirlitsstofnun EFTA sem Ísland hefur ekkert boðvald yfir, stjórnvaldi sem á að vera í íslenskum höndum samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár Íslands. Það er það sem verið er að gera hér, verið er að brjóta það ákvæði.

Stjórnarskráin áskilur það skýrt að þetta vald eigi að vera í íslenskum höndum. Ég lýsti ábyrgð á hendur stjórnarmeirihluta sem gengur þannig fram og mistúlkar og rangtúlkar stjórnarskrána þannig að það sé geðþóttavald (Forseti hringir.) meiri hluta Alþingis á hverjum tíma að framselja vald (Forseti hringir.) til erlendra stofnana.