145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur vegna þess að við höfum lagt okkur öll fram í stjórnarandstöðunni við að reyna að láta mál ganga hratt og vel fyrir sig þannig að við getum farið að ljúka störfum og fara inn í kosningabaráttu þar sem flokkarnir geta farið að kynna það sem þeir ætla sér að gera á næsta kjörtímabili. Það er stutt til kosninga, menn hafa sett sér starfsáætlun til 29. september, og enn dælast inn ný og stór mál. Flest þessara mála eru meira og minna að fara í sömu nefndirnar þannig að þær eru ofhlaðnar verkum og við verðum að fara að setjast niður og taka ákvörðun um það hverju við teljum að við náum að ljúka á þeim stutta tíma sem eftir er. Það vantar ekki viljann hjá okkur til þess að reyna að láta stór og góð mál ganga í gegnum þingið, en það verður engu að síður að vanda til verka og stundum er það einfaldlega þannig að ef menn ætla að vanda til verka er tíminn ekki nægur. Nú þurfa þessar ákvarðanir að fara að eiga sér stað. (Forseti hringir.) Hvað getum við klárað og hvað ekki?