145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er ekki til of mikils ætlast að meiri hlutinn fari að koma sér saman um hvaða mál hann ætli að klára hérna svo að hægt sé að forgangsraða þannig að við getum klárað þessi mál hratt og örugglega, jafnvel þótt ekki væri nema til þess að hv. þingmenn geti vitað í hvaða mál þeir eigi að forgangsraða tíma sínum. Hér á þinginu er þetta stanslaust þannig að við eigum við risastór mál, við vitum ekki hver þeirra fara í gegn, við vitum ekki í hvaða forgang ríkisstjórnin ætlar að setja þau og við vitum ekki hversu mikinn tíma við munum hafa til þess áður en þau eru sett á dagskrá og greidd atkvæði um þau. Sú staða, þau vinnubrögð koma niður á möguleikum hv. þingmanna til að sinna starfi sínu eins og þeir ættu að gera. Það er ekki neinum öðrum að kenna en þeirri tregðu meiri hlutans að koma sér saman um það hvað þau ætla að setja í forgang. Þetta er alfarið í höndum meiri hlutans og það er alveg kominn tími til að við förum að ræða það hér, fyrst það verður greinilega hvergi rætt annars staðar af neinni alvöru.