145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:46]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp til að taka undir með öðrum hv. þingmönnum sem kvarta yfir verkstjórninni á Alþingi Íslendinga. Það er í gildi starfsáætlun. Þann 29. september ætlum við að ljúka þingi en það koma enn ný mál á dagskrá. Í gær vorum við að ræða eitt af þessum nýju málum, stórmál, um breytingu á lífeyriskerfi landsmanna. Þegar við gerum mjög hófsamar og málefnalegar athugasemdir við að keyra eigi það mál í gegn er okkur hótað að við getum þá bara verið hér þangað til því máli sé lokið. Þetta er svo fráleitt, frú forseti. Til þess að það verði einhver friður það sem eftir lifir þings verður að forgangsraða verkefnum, semja við minni hlutann um hvað hægt sé að klára og hafa stjórn (Forseti hringir.) á þinginu, en láta það ekki reka á reiðanum eftir duttlungum einhverra karla í ríkisstjórn.