145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

dagskrá fundarins og afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get tekið undir að það kemur svolítið spánskt fyrir sjónir að sjá hér ný mál í 1. umr. sem ekki er hægt að halda fram að himinn og jörð farist þótt bíði umfjöllunar á næsta þingi, svona í ljósi þess hvar við erum stödd. Ég ræddi þetta lítillega undir liðnum störf þingsins fyrr í morgun og vil segja að i sjálfu sér er mér alveg sama um hvernig núverandi ríkisstjórn fer út úr þessu sem slík. Hún virðist vera fullkomlega firrt og óveruleikatengd gagnvart þeirri stöðu sem er uppi. Niðurstaðan af því, útkoman úr því verður í öfugu hlutfalli við þann tíma sem það tekur stjórnarliða að horfast í augu við veruleikann. Þeim mun minni uppskera þeim mun lengur sem menn þrjóskast svona áfram. Ég sýti það ekkert. En það er eitt sem mér er ekki sama um, það er þingið. Það er hvernig svipurinn er á því, að við vinnum til enda vel og málefnalega og vandað á þingi þessa daga sem eftir eru. Það verður auðvitað erfiðara og erfiðara eftir því (Forseti hringir.) sem þessi stjórnlausa vitleysa heldur áfram og ef ríkisstjórnin ímyndar sér (Forseti hringir.) að hér sé í vændum afgreiðsla á 20, 30, 40 stórmálum á (Forseti hringir.) örfáum sólarhringum þá er það bara glórulaust.