145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:17]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Lögfræðiálitið sem fengið var með stuttum fyrirvara tekur á Árósasamningnum að því leytinu til að það er skoðað, eins og þingmaðurinn bendir á, hvort nýja leyfið og þessi löggjöf standist þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist þar og því er svarað. Varðandi það hvort þarna sé verið að slíta úr samhengi og hvort þurft hefði að fjalla um framkvæmdaleyfin sem eru í gildi og eru til meðferðar fyrir nefndinni, þá tel ég ekki að svo þurfi að gera.

Það hefði verið sveitarfélögunum í lófa lagið að afturkalla þessi leyfi og veita ný, og þá hefðu þau farið á sama hátt í gegnum kerfið, og bregðast við þeim athugasemdum sem kynnu að vera við þau leyfi. Ég veit að það var til skoðunar á einhverju stigi máls að fara þá leið. En í ljósi gríðarlegra hagsmuna og þeirrar brýnu þarfar á að eyða óvissu í þessu máli var ákveðið að fara ekki þá leið, enda tæki hún alltaf einhverja mánuði. Sú leið er því farin að afturkalla leyfin með lögum, afturkalla og veita framkvæmdaleyfi með lögum. Að mati lögfræðistofunnar sem við ráðfærðum okkur við brýtur það ekki í bága við Árósasamninginn þar sem ekki er um að ræða stjórnvaldsákvörðun heldur löggjöf sem sett er af kjörnum fulltrúum þjóðarinnar. Þess vegna er það sett hér fram með þessum hætti og telst ekki brjóta í bága við hann.