145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:21]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef svo sem ekki miklu við að bæta varðandi Árósasamninginn. Þær ákvarðanir eða þessi lög, verði þau samþykkt, eru að sjálfsögðu kæranleg til dómstóla og öllum frjálst að gera það, en þau fara ekki í það ferli, eins og við ræddum áðan, sem stjórnvaldsákvarðanir fara með öðrum hætti.

Varðandi aðra ferla sem hugsanlega eru eftir er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að það er eftir ein ákvörðun í þessu hvað varðar þetta verkefni og það er ákvörðun um eignarnám. Landsnet óskaði eftir eignarnámi í október 2015, lagði inn beiðni til ráðuneytis míns um eignarnám. Það er ekki langt í að sú ákvörðun liggi fyrir. Við höfum, sérstaklega í ljósi nýgengins hæstaréttardóms er varðar Suðurnesjalínur, vandað okkur afar vel við þessa ákvörðun, leitað samráðs, tryggt að búið sé að leita allra leiða til þess að ná niðurstöðu án þess að grípa þurfi til eignarnáms, þannig að það mál er í þeim ferli. Ég á von á því að sú ákvörðun liggi fyrir fljótlega, þótt ég geti ekki á þessu stigi sagt nákvæmlega til um hvenær það er.

Varðandi afturvirknispurningu þingmannsins verð ég að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á því á hvaða leið þingmaðurinn er, en ég skal svara þeirri spurningu þegar við höfum heyrst aðeins betur með það hverju hún falaðist eftir.