145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:24]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er leiðindamál. Ég þóttist heyra það á ræðu ráðherrans og tel hana vera sammála mér um það. Þarna er verið að fúska með það að setja lög af því að ferlar ganga ekki nógu hratt að mati ráðherrans og að mati framkvæmdaraðila til þess að koma á starfsemi á Bakka hjá PCC og til þess að Landsvirkjun geti farið að senda þá orku sem hún framleiðir á Þeistareykjum inn í þá verksmiðju.

Hér er sagt: Það eru svo gríðarlegir hagsmunir sem liggja fyrir, gríðarlegir fjárhagslegir og samfélagslegir hagsmunir að við verðum, þótt slæmt sé, að keyra þetta svona í gegn.

Hverjir eru þessir hagsmunir? Förum aðeins yfir það. Mig langar aðeins að horfa á stóru myndina í því.

Ríkissjóður hefur borgað jarðgöng hjá Bakka. Síðasta þing samþykkti ívilnanir til PCC sem þýðir að ríki og sveitarfélög afsala sér sköttum og gjöldum. Svo er Landsvirkjun að virkja á Þeistareykjum. Hvað kostar það? Það er mínus í efnahagsreikningi þess fyrirtækis, sem er ríkisfyrirtæki. Svo eru það línulagnir Landsnets. Hvað kosta þær? Ég vil einfaldlega spyrja ráðherrann í mínu fyrsta andsvari: Er þetta allt þess virði, að fara fram með þessum hætti? Sjáum við ekki í hnotskurn að sú (Forseti hringir.) stóriðjustefna sem hefur verið rekin borgar sig alls ekki?