145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:28]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg grein fyrir þessu. Mér finnst ráðherra vera að segja: Hendur mínar eru bundnar, við verðum að fara fram með þessum hætti. Það þykir mér mjög miður. En hæstv. ráðherra ber samt ábyrgð á því að þetta sé gert svona. Ég veit að hún gengst við þeirri ábyrgð.

Hæstv. ráðherra sagði í ræðu sinni áðan að sama hvaða skoðun menn kynnu að hafa á efnisatriðum frumvarpsins væri mikilvægt að við afgreiddum málið hratt og vel.

Ég vil að það komi skýrt fram hvaða afstöðu ég hef til stóriðju og ég held að ég hafi farið vel yfir það áðan. Ég vil segja: Þetta skiptir auðvitað máli í þessu sambandi. Það er ekki hægt að krefja þingmenn um að afgreiða mál, sama hvaða afstöðu þeir hafa til málsins. Það er náttúrlega mjög skakkt.

Auðvitað verður farið mjög vel yfir þetta mál og fólk hlýtur að gera það eftir sinni samvisku. Mér þykir bara miður að heilt samfélag sé sett í þessa stöðu og að fyrri ríkisstjórn og núverandi ríkisstjórn geri það. Að sjálfsögðu veit ég það og viðurkenni að þetta er eitthvað sem byrjaði fyrir mörgum árum, en ég vildi óska að menn hefðu verið nógu framsýnir til að vera ekki með þessa stóriðjustefnu. Við líðum fyrir það núna. Ég vil brýna okkur til þess að fara ekki þessa leið áfram. Nú verður þetta að hætta.