145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil koma hér upp í stutta ræðu til þess að gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls í andsvörum til ráðherra. Við vorum sammála um það að þetta er leiðindamál, að þurfa að grípa inn í með þessum hætti, ég skil það per se. Ég hef fulla samúð með samfélaginu á Húsavík úr því sem komið er.

Að því sögðu vil ég taka fram að ég vildi óska að upp í þennan leiðangur hefði aldrei verið lagt. Ég vil bara segja það mjög skýrt. Ég vona að við lærum af því sem er að gerast í dag og hugsum okkur vel um þegar horft er til annarra viðlíkra verkefna, til annarra stóriðjuverkefna. Hvað þýða þau? Hér eru ýmsir sem tala á þann veg að mikilvægt sé og gott fyrir samfélög að stóriðja sé reist, að það geti verið innspýting fyrir sveitarfélög og samfélög. Ég leyfi mér að draga upp á móti neikvæðar hliðar þarna.

Mikið er rætt um efnahagsleg áhrif í tengslum við þessi samfélagslegu áhrif. Þá vil ég bara að við munum að með ivilnunum til viðlíkra verkefna erum við að borga heilmikið með þeim. Við verðum að taka það með í þennan reikning. Eins og núna með Bakka þá hafa verið grafin þar jarðgöng. Þau kosta milljarða. Það hafa verið ívilnanir af hendi ríkis og sveitarfélaga af sköttum og gjöldum og hvað þýðir það? Það þýðir að það tiltekna fyrirtæki og viðlíka fyrirtæki fá afslátt af því að borga það sem allir aðrir þurfa að borga. Það þarf ekki að borga jafnmikið af sköttum eða gjöldum til sveitarfélaga, og er það þá bara þannig að við þurfum það ekki? Jú, við notum skattana til að byggja upp ýmsa innviði sem þessi fyrirtæki sem og önnur nota. Munurinn hér er bara að það eru aðrir að borga fyrir þessi afnot en þessi tilteknu fyrirtæki. Það hef ég sagt og segi enn og aftur að sé röng ráðstöfun.

Línulagnir kosta líka heilmikið fé. Það kemur í hlut skattgreiðenda að borga það. Við eigum sem betur fer okkar tengifyrirtæki enn þá og ég vona að það verði um ókomna tíð. Svo er það líka þannig að Landsvirkjun virkjar iðulega í tengslum við áform af þessu tagi, stóriðjuáform, og það er ekki eins og það sé ókeypis. Það kostar að gera það og það kostar marga milljarða. Landsvirkjun er ríkisfyrirtæki. Öll þau lán sem Landsvirkjun tekur fyrir slíkum framkvæmdum eru áhætta fyrir skattgreiðendur og fyrir borgara landsins.

Mér finnst mikilvægt í þessu samhengi að draga þetta líka upp á borðið og að við ræðum þetta allt í samhengi. Út af því að mig langar að við lærum af því sem er að gerast á Bakka. Ég vona innilega að við verðum ekki í sömu stöðu með næstu stóriðju, með næsta stóra verkefni. Það má ekki gerast. Til þess þurfum við stefnubreytingu. Þá þurfum við að hætta að einblína á að það sé á einhvern hátt mikilvægt og gott að einbeita sér að þessum iðnaði og leiðum. Ég vona að okkur auðnist viska til þess að gera það.

Með þetta tiltekna mál er það auðvitað þannig að allir aðilar eru komnir út í horn. Hér er verið að reyna að redda málum. Að vissu leyti hef ég skilning á því, en að sama skapi get ég ekki sætt mig við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar sem hafa leitt til þessa í dag. Þetta hefði mátt vera ljóst og við hefðum átt að vera búin að læra af sögunni. Ég vona að við gerum það þá núna.

Hér er verið að grípa með pólitískum hætti inn í ferla hjá stjórnsýslunni. Það er óvenjulegt. Þó að Alþingi eigi að eiga síðasta orðið og ráðherra beri ábyrgð, sem hún gengst svo sannarlega við, þá er að mínu viti best að lögbundnir ferlar fái að ganga áfram án þess að við séum að grípa inn í hér.

Nú veit ég ekki nákvæmlega hvað varð til þess að úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál mátti ekki bara skila áliti sínu á þessari línulögn. Mér skilst að niðurstöðu hafi verið að vænta núna í október. Af hverju liggur svona ofboðslega mikið á? Svo er þarna nýtt skipulag eins og hæstv. ráðherra talaði um. Kannski er það það sem keyrir þetta áfram, það þarf að fara í það hjá sveitarfélögunum. Allt er þetta bagalegt, virðulegur forseti.

Ég fagna því að þetta komi í okkar nefnd, ég á sæti í atvinnuveganefnd, og málið verður unnið þar af vandvirkni. Það er athyglisvert hve ofboðslega mikið lá á því. Það er náttúrlega engin ný saga, þetta hefur verið í hálfgerðum járnum dálítið lengi, þannig að ég átta mig ekki alveg á því af hverju það var hér í fyrrinótt eða nóttina fyrir það sem menn settust niður og skrifuðu þessi lög um þetta tiltekna mál. Af hverju nákvæmlega núna? Af hverju ekki fyrir mánuði eða hvað það var? Þá hefðum við líka haft meiri tíma sem er mikilvægur til þess að fara vel ígrundað yfir mál af þessu tagi og öll mál. Mér leiðist það þegar sú krafa er óbeint gerð til þingmanna að þeir vinni hratt út af því að það liggi svo mikið á. Þá er meiri hætta á því hjá okkur, breyskum þingmönnum, og öllum aðilum að hlutirnir séu ekki nógu vel gerðir. Það vil ég ekki að sé með þetta mál eða önnur.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu hvað þetta varðar. Ég vildi bara færa það til bókar hvað mér finnst um stóru myndina í þessu máli. Ég vona að okkur auðnist að standa aldrei í sömu sporum og við erum í hér í dag.