145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:42]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hélt að það hefði komið skýrt fram í ræðu minni hvers vegna, en ætla að ítreka svör mín hér. Hv. þingmaður spyr: Af hverju liggur svona á, af hverju var farið að semja frumvarp í fyrrinótt? Það er einmitt vegna þess að tíminn frá því að úrskurður var felldur í ágúst, eða framkvæmdaleyfin voru stöðvuð til bráðabirgða, þar til frumvarpið var skrifað var nýttur til þess að reyna að komast hjá lagasetningu. Það er stóra skýringin og eina skýringin. Við vorum að funda með öllum aðilum innan stjórnsýslunnar og utan til þess að leita leiða til að forða mætti lagasetningu og til að þetta gæti leyst utan þessara veggja hér. Það er ástæðan.

Af hverju mátti nefndin ekki skila? Vegna þess að það liggur bara of mikið á. Við erum að fara inn í vetur. Það þarf að klára ákveðna vinnu áður en vetrarveðrið skellur á af fullum þunga. Það er þess vegna sem menn töldu að verkefninu gæti verið stefnt í voða af ýmsum ástæðum. Þess vegna liggur svona mikið á.

Annað sem ég vildi bregðast við og taka undir með hv. þingmanni: Ég vona svo sannarlega að við lærum af þessu líka vegna þess að þetta er ekki staða sem nokkur maður vill vera í. Það er þess vegna sem við munum gera allt til þess að svo megi verða, að við drögum lærdóm af þessu, gerum hlutina rétt.

Varðandi þá stefnubreytingu sem hv. þingmaður kallar eftir þá hefur hún nú þegar orðið. Við erum búin að setja hér á þessu kjörtímabili rammalöggjöf um ívilnanir sem eru ekkert endilega til stóriðju, það er rammalöggjöf um ívilnanir til fjárfestinga vegna ákveðinna byggðasjónarmiði sem uppfylla (Forseti hringir.) ákveðin skilyrði. Síðan erum við búin að móta stefnu um nýfjárfestingar þar sem ekki er að finna neina stóriðjustefnu heldur miklu frekar áherslu á nýfjárfestingar í líftækni og nýsköpun og alls konar öðrum atriðum.