145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[14:45]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér upp og svara þeim spurningum sem ég lagði fram í ræðu minni. Engum spurningum var svo sem beint til mín þannig að ég finn mig ekki knúna til að svara neinu.

Ég fagna því ef hæstv. ráðherra segir að verið sé að hverfa frá stóriðjustefnu. Ég vil samt minna á að hér bíða nokkrar verksmiðjur sem eru stórar. Við getum fullyrt um það, kísilverksmiðjur og hvað það er. Þær eru ekki einhver lítil krúttleg þekkingarsetur. Það eru stórar verksmiðjur sem eru alls ekki umhverfisvænar. Ég er ekki sannfærð um að sú stefna um nýfjárfestingar sem samþykkt var hér sé eins og hæstv. ráðherra lýsir. Ég hef áhyggjur af því að við séum enn þá í sama farinu.