145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Ég vil fagna því að við sjáum fyrir endann á þessu erfiða máli sem ég reikna með að ég geti sagt fyrir hönd flestra okkar að komi mjög í bakið á okkur og er út af fyrir sig alveg sjálfstætt áhyggjuefni að staðan skuli vera eins og hún er. Við erum hér með mjög nýleg lög um náttúruvernd, náttúruverndarlög, þar sem við náðum þverpólitískt saman í þinginu um að ramma inn þennan mikla lagabálk. Þingmenn lögðu sig fram um að teygja sig í áttina hver til annars og ná saman um mikilvægan málaflokk. Það er varla þornað blekið á þeim lögum og þau komin til framkvæmda þegar upp rísa deilur sem þessar.

Ég er alveg sannfærður um að það var ekki ætlun eins eða neins hér á þingi þegar við settum þessi lög, að það hafi verið neinn hér sem hafi séð það fyrir að einhverjir aðilar úti í bæ sem rýndu lögin og leituðu að hugsanlegum glufum gætu farið að beita þessu gegn verkefni eins og norður í Þingeyjarsýslum, á Bakka, þar sem allt ferli hefur farið fram samkvæmt gildandi lögum, það hefur farið fram umhverfismat og allar leyfisveitingar fengnar, búið að skrifa undir samninga við fjárfesta, það eru gríðarlegir hagsmunir undir, að á grundvelli þessara laga væri hægt að stöðva þær framkvæmdir og setja í það mikið uppnám að það er alveg raunhæfur möguleiki að ef þingið bregst ekki við þá hreinlega hverfi þessir aðilar af vettvangi, skilji þetta eftir og sendi íslensku þjóðinni reikninginn fyrir því sem búið er að gera. Ef við náum ekki að klára ákveðna hluti á settum tíma, og stefnir nú í að þeim seinki svolítið, hljóta þeir að telja sig vera með forsendubrest sem þeir geta byggt skaðabótakröfu sína á. Þetta er sú mynd sem m.a. hefur verið dregið upp að sé möguleg í stöðunni. Þess vegna er það ánægjuefni að hæstv. iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin skuli bregðast við eftir ítarlega skoðun á málinu með þessum hætti. Það er óheppilegt að við þurfum að gera þetta á þennan hátt en það er nauðsynlegt.

Það er áhyggjuefni að við skulum svona stuttu eftir alla sáttina og samstöðuna sem var á milli okkar þverpólitískt lenda í deilum út af þessum málum. Rifjast þá upp afgreiðslan á rammaáætlun 2012 sem var með nákvæmlega sama hætti. Það var mikilvæg löggjöf, mikilvæg sáttagjörð inn í framtíðina um umfjöllun um vernd og nýtingu á orkuauðlindum okkar, flokkun þeirra í verndar- og nýtingarflokka. Þá sat ég í hv. iðnaðarnefnd sem fjallaði um þetta. Það var mikil samstaða. Við teygðum okkur virkilega vel saman og vildum ná einhverju sáttaferli í gang sem allir gætu verið sáttir við. Fordæmið lofaði góðu þar. Verkefnisstjórn um ramma 2, sem hafði starfað í langan tíma undir forustu Svanfríðar Jónasdóttur, fyrrverandi þingmanns Samfylkingarinnar og bæjarstjóra þá á Dalvík, hafði skilað mjög góðri vinnu, ítarlegri og góðri vinnu. Við settum löggjöfina svolítið á grunni þeirrar vinnu. Við náðum öllum saman.

En blekið var vart þornað þegar mjög umdeildar og að ég vil segja óheppilegar ákvarðanir voru teknar. Síðan er það ferli búið að vera í uppnámi, eins og dæmin sanna, með allt öðrum hætti en sáttagjörðin sem þingið náði sér saman um var. Það er auðvitað áhyggjuefni fyrir okkur í þinginu að sú sátt sem við reynum að teygja okkur í skuli ekki ná lengra. Það hlýtur þá í senn að vera úrlausnarefni fyrir okkur að vinna með áfram, því að ekki ætla ég neinum það að vilja ekki hafa þessa hluti í lagi. Ég held að fordæmið sé alveg komið í þeim efnum.

Ég vil aðeins gera ræðu hv. þm. Bjartar Ólafsdóttur að umfjöllunarefni núna þar sem hún beindi orðum sínum svolítið að því sem hefur verið talað um sem stóriðju. Hún talaði um það sem einhverja stefnu nánast þessarar ríkisstjórnar. Það kom fram hjá henni í útvarpsþætti sem við vorum í í morgun að hún væri orðin þreytt á stóriðjustefnu þessara flokkar sem við værum að borga heilmikið með, stóriðju sem ekki borgaði sig. Ég sagði í þeim þætti og stend við það að það blasti við okkur greinilegt þekkingarleysi. Þetta væri ekki umhverfisvænt o.s.frv. Það er umdeilt, eins og við vitum, hvort álver eru umhverfisvæn. Ef kolefnisspor álframleiðslu er reiknað alla leið ættu umhverfissinnar, eins og þeir gera víða um heiminn, að hvetja til aukinnar notkunar og framleiðslu á áli, sérstaklega ef það á sér stað með endurnýjanlegum grænum orkugjöfum.

Ég vil í sambandi við þetta eyða smá tíma, virðulegi forseti, í að lesa úr nefndaráliti atvinnuveganefndar um tillögu til þingsályktunar um stefnu um nýfjárfestingar, sem hæstv. iðnaðarráðherra lagði fram síðastliðið vor og var afgreidd frá þinginu. Þar er fjallað nákvæmlega um hvernig við sjáum íslenskt atvinnulíf byggjast upp á næstu árum og áratugum. Þetta er kannski viðameira mál en sú litla umfjöllun sem þetta hefur fengið gefur til kynna. Það sem er sérstakt við þetta er að undir þetta nefndarálit skrifa auk mín hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Haraldur Benediktsson, Ásmundur Friðriksson, Kristján L. Möller, Páll Jóhann Pálsson, Þorsteinn Sæmundsson og Þórunn Egilsdóttir. Þetta eru sem sagt allir þingmenn í atvinnuveganefnd nema þingmenn Bjartrar framtíðar, sem vildu ekki vera með í þessu. Skyldi það ekki einhvern tíma hafa verið í senn fagnaðarefni en jafnframt vakið eftirtekt eða undrun að við, þessir þingmenn, komandi hver úr sínum flokknum, gætum sameinast um hvernig við sjáum íslenskt atvinnulíf byggjast upp á næstu árum og áratugum? Mér þótti það nokkuð merkilegt. Ég ætla að lesa aðeins úr þessu nefndaráliti, með leyfi forseta:

„Í tillögunni eru tilgreind verkefni sem lögð verði áhersla á til að efla nýfjárfestingu í íslensku atvinnulífi og að auki kemur fram að markaðs- og kynningarstarfsemi stjórnvalda taki mið af þeirri áherslu. Tilgangur þingsályktunartillögunnar er að tilgreina ákveðin viðmið sem endurspegli áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar varðar. Í athugasemdum með tillögunni kemur fram að með nýfjárfestingum sé átt við fjárfestingar sem auka fjölbreytni atvinnulífsins, koma með nýja þekkingu og tækni og efla samkeppnishæfni landsins. Þau nýmæli felast í tillögunni að stefnan beinist jafnt að innlendri fjárfestingu sem erlendri auk þess sem lögð er áhersla á aukna fjölbreytni og afleidda innlenda starfsemi […]

Meiri hlutinn telur mikilvægt að stefnunni verði fylgt skipulega eftir verði hún afgreidd frá þinginu og tekur undir ábendingar sem fram komu fyrir nefndinni um að oft nái fyrirheit ekki fram að ganga í stjórnsýslunni […]

Við umfjöllun um málið kom fram að Ísland standi frammi fyrir miklum tækifærum hvað varðar fjárfestingar innlendra sem erlendra aðila á fjölbreyttu sviði atvinnulífsins. Meiri hlutinn fjallaði sérstaklega um landsbyggðina og stöðu hennar samanborið við þéttbýl svæði, t.d. á suðvesturhorninu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að í stefnu stjórnvalda verði sérstaklega horft til uppbyggingar fjölbreyttra atvinnutækifæra á landsbyggðinni og telur það grunn að byggðafestu í framtíðinni. Meiri hlutinn bendir m.a. á heimild stjórnvalda til að veita sérstakan byggðastuðning samkvæmt lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi, nr. 41/2015. Meiri hlutinn telur ljóst að t.d. sjávarútvegur og landbúnaður muni ekki að óbreyttu gegna því lykilhlutverki við að tryggja byggðafestu sem verið hefur undanfarna áratugi og því mikilvægt að skjóta fjölbreyttari stoðum undir þær greinar sem og aðrar […]“

Ég gríp svona inn í þetta, með leyfi forseta.

„Þá bendir meiri hlutinn á að brýnt er að styrkja dreifikerfi raforku og efla flutningsgetu þess til að tryggja nægjanlegt framboð raforku um allt land. Fram hefur komið að fyrir utan Suðvesturland og hluta Norðausturlands eru takmarkaðir möguleikar til uppbyggingar á aðstöðu fyrir verkefni sem krefjast teljandi orku. Meiri hlutinn leggur því til að sérstaklega verði horft til þess að efla uppbyggingu innviða í dreifi- og flutningskerfi raforku.

Fram kom fyrir nefndinni að greina þyrfti á milli annars vegar orkuiðnaðar og hins vegar stóriðju. Með orkuiðnaði er almennt átt við fyrirtæki sem þurfa t.d. 5–50 MW fyrir rekstur sinn og var í því sambandi t.d. minnst á rafvæðingu hafna en allt að 10 MW eru nauðsynleg fyrir stærri hafnir. Nægur aðgangur að orku gefur mikil tækifæri m.a. við að efla nýsköpun og þekkingariðnað á tækni- og vísindasviðinu. Glöggt dæmi um þetta eru áhugaverð verkefni sem hafa skapast á vettvangi Sjávarklasans í þróun á fullvinnslu afurða. Þá hefur fjölbreytt starfsemi, sem segja má að sé einstök á heimsmælikvarða, skapast í tengslum við orkuvinnslu í Auðlindagarðinum á Suðurnesjum […]

Meiri hlutinn hvetur því til þess að farið verði í sérstakt átak í samvinnu opinberra aðila og atvinnulífsins til að fá hingað til lands stórnotendur á þessu sviði.“ — Þ.e. gagnaflutninga. — „Samhliða því verður að stórefla innviði fjarskipta um land allt með aukinni útbreiðslu ljósleiðaratenginga. Stefna ber að því að 99,9% landsmanna hafi aðgang að tengingum sem eru a.m.k. 100 Mb/s.

Í tillögugreininni er gegnumgangandi vísun í þekkingariðnað og nýsköpun sem er sá iðnaður sem lýtur að því að skapa eitthvað nýtt eða bæta það sem þegar er til. Í stefnunni er t.d. lögð áhersla á nýfjárfestingar sem stuðla að aukinni fjölbreytni og afleiddri innlendri starfsemi, sem ýta undir vöxt alþjóðlega samkeppnishæfs þekkingariðnaðar og sem styðjast við nýjustu og bestu fáanlegu tækni og umhverfisviðmið. Jafnframt er talað um samstarf við íslensk fyrirtæki og fjárfestingar í íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

Mikilvægt er að markmið Íslands varðandi losun gróðurhúsalofttegunda séu höfð til hliðsjónar í uppbyggingu atvinnutækifæra í framtíðinni. Í því sambandi bendir meiri hlutinn á að Íslendingar hafa fleiri tækifæri en margar aðrar þjóðir til sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra orkugjafa. Við stefnumörkun og ákvarðanatöku skal heildarmyndin um losun gróðurhúsalofttegunda höfð til hliðsjónar þegar kemur að uppbyggingu í atvinnulífi, m.a. með tilliti til skuldbindinga Íslands á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í desember 2015 […] Með þeirri skuldbindingu gengu íslensk stjórnvöld til liðs við framsæknustu þjóðir heims um minni losun gróðurhúsalofttegunda. Þessar skuldbindingar skulu hafðar að leiðarljósi við mat á umhverfislausnum nýrra fjárfestingarverkefna og fléttast inn í mat á nýjum fjárfestingarverkefnum. Það verður ekki gert öðruvísi en með því að skoða rækilega hvernig fyrirtæki leysa umhverfismál sín, einkum losun gróðurhúsalofttegunda […] Hvað loftslagsmarkmiðin varðar og íslenskt atvinnulíf almennt telur meiri hlutinn að forðast eigi að stilla atvinnugreinum hverri upp á móti annarri. Nefna má sem dæmi að mikið er rætt um kolefnislosun stóriðju en einnig má benda á óhjákvæmilega kolefnislosun vegna flutnings ferðamanna til og frá landinu.“ — Sem er reyndar meiri en kolefnislosun vegna allra álvera í landinu, svo það sé nefnt.

„Meiri hlutinn bendir á að sérstaða Íslands liggur m.a. í framleiðslu og dreifingu á grænni orku. Á öðrum sviðum er samkeppnisstaða Íslands erfiðari, svo sem hvað varðar samgöngur, fjölbreytta reynslu og viðeigandi menntun starfsfólks og er þar einkum átt við skort á iðn- og tæknimenntuðu fólki hér á landi […]

Líkt og framar er getið felast í tillögu þessari ákveðin viðmið sem endurspegla áherslu stjórnvalda hvað nýfjárfestingar snertir. Meiri hlutinn telur að stöðugt þurfi að leita eftir því að hér á landi verði sköpuð fjölbreytt starfstækifæri. Að mati meiri hlutans er það í samræmi við stefnuna að í framtíðinni verði einkum horft til iðnaðaruppbyggingar sem er smærri að umfangi en ef til vill hefur verið hingað til og sem krefst hæfilegrar orku […]“

Svo mörg voru þau orð.

Ég held að það hefðu einhvern tíma þótt tímamót að fulltrúar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins gætu skrifað undir þessa framtíðarsýn. Ég hef auðvitað gert mér vonir um að menn geti þá sameinast um einhverja niðurstöðu sem geti ýtt undir þessa þróun. Það er bara þannig í dag úti um hinar dreifðu byggðir í landinu að tækifærin eru mjög takmörkuð. Sjávarútvegur og landbúnaður munu ekki í náinni framtíð á næstum árum og í framtíðinni tryggja þá byggðafestu sem þessar atvinnugreinar hafa staðið fyrir á undanförnum áratugum. Það er því auðvitað alveg sérstakt áhyggjuefni núna í því skyni að afla orku til að geta haldið áfram á þessum vettvangi. Eins og hér hefur verið farið yfir er allt stopp og alveg útilokað að ná einhverju þverpólitísku samstarfi við flokkana á Alþingi um að við afgreiðum út einhvern hluta af þessari rammaáætlun sem nú er til afgreiðslu til að geta látið þessi hjól snúast áfram, þannig að þau orð sem við skrifuðum öll hér undir hafi eitthvert gildi.