145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

raflínur að iðnaðarsvæðinu á Bakka.

876. mál
[15:26]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn urgur í undirrituðum út í Landvernd eða aðra í þessu máli. Ég ætla að biðja fólk um að misskilja mig ekki í þeim efnum. Um tafir af hálfu Landsnets get ég bara ekki fullyrt. Ég þekki ekki málið með þeim hætti að ég geti tjáð mig um það. Það verður að spyrja þeirrar spurningar á þeim bæ.

Sem betur fer höfum við innleitt hér kæruleiðir, opnar fyrir almenning og félagasamtök og sveitarfélög. Það er af hinu góða. En við hljótum að spyrja okkur, við aðstæður sem þessar, hvernig framtíðin líti þá út, ekki síst með tilliti til þess sem ég las hér upp úr áðan sem sameiginlega sýn okkar á nýfjárfestingar og uppbyggingu, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Það er alveg ljóst að hvorki innlendir né erlendir fjárfestar munu koma í stærri fjárfestingarverkefni til landsins ef á síðustu metrunum er hægt að kæra framkvæmdaleyfin og setja alla framkvæmdina í uppnám. Það er alveg ljóst að slíkt gengur ekki upp. Eða lætur einhver sér detta í hug varðandi það verkefni sem var lagt af stað með á Bakka á síðasta kjörtímabili — sem sumir hafa nú viljað kalla stóriðjuverkefni Vinstri grænna, og ég þakka þeim fyrir að horfa til landsbyggðarinnar í þessu tilliti og standa að þessari uppbyggingu þar — að fjárfestar hefðu komið að því verkefni ef fyrir lægi að einhverjir aðilar í samfélaginu gætu kært verkefnið og stöðvað það á síðustu metrunum? Þegar búið væri að fjármagna það, smíða í það tæki og búnað, fjárfesta fyrir tugi ef ekki hundruð milljarða í verkefninu gæti einhver komið og kært (Forseti hringir.) og stoppað? Nei, ef við ætlum að eiga einhvern möguleika á að byggja upp á grunni þeirrar þingsályktunar sem ég las hér upp úr áðan þurfum við að girða okkur í brók og hafa þetta ferli þannig að það grípi inn í á réttum tíma en ógni ekki framkvæmdum þegar þær eru komnar á þennan skrið.