145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist.

854. mál
[15:54]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, sem er óneitanlega mun jákvæðara mál en það sem við vorum að ljúka umræðu um. Það er á þskj. 1621, og er nr. 854.

Eins og rakið er í greinargerð með frumvarpinu hefur íslenskur tónlistariðnaður farið ört vaxandi undanfarin ár og er orðinn ein af mikilvægustu iðngreinum Íslands sem gefur af sér umtalsverðan fjölda starfa á ársgrundvelli. Á undanförnum árum hafa íslenskir tónlistarmenn getið sér gott orð erlendis og er íslensk tónlist orðin gríðarlega mikilvæg landkynning. Talað er um „hinn íslenska hljóm“ sem vakið hefur áhuga fjölmargra erlendra hljómlistarmanna og tónlistaráhugamanna á landi og þjóð og hefur einnig orðið til þess að erlendir tónlistarmenn hafa komið hingað til lands til að hljóðrita tónlist.

Þrátt fyrir að vegur íslenskrar tónlistar hafi farið ört vaxandi hefur bolmagn útgáfuaðila tónlistar á Íslandi hins vegar dregist saman að undanförnu. Það má m.a. rekja til þess að rafræn sala á tónlist hefur ekki enn náð fótfestu og sala á hljómdiskum hefur hrunið. Íslenskur tónlistariðnaður býr þar að auki við erfið starfsskilyrði sökum smæðar markaðar og takmarkaðs fjármagns. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2013 er mælt fyrir að tónlist skuli njóta sömu hvetjandi ívilnana og kvikmyndagerð, þ.e. að hluti kostnaðar við tónlistarupptökur verði endurgreiddur. Í samræmi við það er það vilji þessarar ríkisstjórnar að efla íslenskan tónlistariðnað sem iðngrein hér á landi með því að styðja við hljóðritun tónlistar, eins og lagt er til í því frumvarpi sem ég mæli hér fyrir.

Frumvarpið byggir í grunninn á sömu hugmyndafræði og lög um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi en þau hafa verið ein af forsendunum fyrir eflingu kvikmyndaiðnaðarins á Íslandi á undanförnum árum, með tilheyrandi jákvæðum efnahagslegum sem og menningarlegum áhrifum. Áhrif þeirrar lagasetningar hafa verið mjög sýnileg, bæði fyrir kvikmyndaiðnaðinn og markaðssetningu Íslands almennt. Markmið okkar er að ná sama árangri með tónlistariðnaðinn. Ég lít svo á að allar forsendur séu til staðar til að svo geti orðið.

Helstu efnisatriði frumvarpsins eru sem hér segir:

Markmið frumvarpsins er að efla tónlistariðnaðinn sem iðngrein hér á landi með því að veita útgefendum hljóðrita tímabundinn rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi. Útgefendur í þessu tilliti geta bæði verið fyrirtæki og einstaklingar. Samkvæmt frumvarpinu er unnt að sækja um endurgreiðslu á hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun tónlistar hér á landi sem gefin hefur verið út og gerð almenningi aðgengileg. Falli 80% kostnaðar til á Íslandi er heimilt að greiða allt að 25% af þeim kostnaði sem fellur til á Evrópska efnahagssvæðinu. Nauðsynlegt er að hafa þá undantekningu á því hvar kostnaðurinn fellur til til þess að uppfylla reglur EES-samningsins um þjónustufrelsi.

Með frumvarpinu er lagt til að umsókn um endurgreiðslu sé skilað til ráðuneytisins innan sex mánaða frá því að hljóðrit var gefið út og mun sérstök fjögurra manna nefnd fara yfir umsóknir og gera tillögur til ráðherra um endurgreiðslu. Til að hægt sé að fá endurgreiðslu fyrir hljóðrit þarf samanlagður spilunartími að ná 30 mínútum, hljóðritin þurfa að vera gefin út á sama 18 mánaða tímabili og nýjasta hljóðritið má ekki vera ekki eldra en sex mánaða. Þá eru sett skilyrði um ýmsa upplýsingagjöf, að hljóðritin hafi fengið ISRC-kóða og búið sé að greiða höfundaréttargjöld og að útgefandi eigi ekki vangreidda skatta eða gjöld.

Samkvæmt frumvarpinu er heimilt að endurgreiða allt að 25% af endurgreiðsluhæfum kostnaði. Endurgreiðsluhæfur kostnaður er talinn upp í 6. gr. frumvarpsins sem tímagjald í hljóðveri, launakostnaður aðkeyptra flytjenda og/eða tæknimanna, ferða- og flutningskostnaður á hljóðfærum og aðalflytjendum og eigin vinnu. Með því að hafa ákveðinn skilgreindan kostnað sem endurgreiðsluhæfan kostnað er leitast við að hafa endurgreiðslukerfið sem einfaldast og skilvirkast. Frumvarpið mælir fyrir því að sami útgefandi geti ekki fengið meira en 30 millj. kr. endurgreiddar á þriggja ára tímabili. Er þetta gert til að halda endurgreiðslukerfinu innan ríkisstyrkjareglna EES varðandi svokallaða minni háttar aðstoð, þ.e. ríkisaðstoð sem er ekki sérstaklega tilkynningarskyld til ESA. Hafi umsækjandi hlotið opinberan styrk til útgáfu sömu hljóðrita skal sá styrkur koma til frádráttar.

Lagt er til að gildistími laganna verði tímabundinn í fimm ár, frá 1. janúar 2017, og mælt er fyrir um að áður en gildistími þeirra renni út skuli framkvæma árangursmat á áhrifum laganna á hljóðritun tónlistar hér á landi. Rétt er að taka fram að frumvarpið var samið af starfshópi á vegum ráðuneytisins sem sæti áttu í fulltrúar frá tónlistariðnaðinum, félagi hljómplötuframleiðenda og fleiri hagsmunaaðilar. Að því er fjárhagsleg áhrif varðar er erfitt að áætla hver meðal endurgreiðsluupphæð á umsókn verður og einnig hversu margar umsóknir munu berast verði frumvarpið að lögum. Kostnaður við hljóðritun tónlistar getur verið mjög misjafn og kostnaðarliðir breyst mikið milli verkefna og flytjenda. Starfshópurinn sem stóð að gerð frumvarpsins gerði gróflega áætlun í samráði við nokkur útgáfufyrirtæki á þeim kostnaði sem fellur til við hljóðritun tónlistar og fellur undir gildissvið frumvarpsins. Samkvæmt þeirri áætlun er gert ráð fyrir að meðalendurgreiðsla fyrir hverja samþykkta umsókn verði um 625 þús. kr. Ef gert er ráð fyrir 130 samþykktum umsóknum á ári mun áætlaður heildarkostnaður við beinar endurgreiðslur nema u.þ.b. 81 millj. kr. á ári.

Virðulegur forseti. Ég tel að verði þetta frumvarp samþykkt verði það mikið framfaraspor fyrir íslenskan tónlistariðnað og ég vona að við hér á Alþingi getum náð góðri samstöðu um framgang þess. Ég geri mér fyllilega grein fyrir að þetta mál er seint fram komið enda var áætlað að það kæmi fram á næsta þingvetri. En þegar ljóst varð að kjörtímabilið mundi styttast var gefið í til þess að freista þess að reyna að koma málinu fram og helst að gera að lögum fyrir þinglok svo að við gætum hafið þetta ferli. Þetta er nýtt fyrirkomulag, ekki eru fyrirmyndir að því í öðrum löndum svo ég viti til. Fyrirmynd okkar í þessu er kvikmyndaendurgreiðslukerfið sem hefur sýnt og sannað að hafa jákvæð áhrif á þann geira sem þar er undir.

Svona almennt endurgreiðslukerfi á sér sem sagt ekki beina hliðstæðu í nágrannaríkjum okkar. Með samþykkt frumvarpsins væri Íslands að skapa sér ákveðna jákvæða sérstöðu og yrði því mjög samkeppnishæft við nágrannaríki okkar þegar kemur að hljóðritun tónlistar. Endurgreiðslukerfi sem þetta er líklegt til að virka sem hvatning fyrir erlenda tónlistarmenn til að koma og hljóðrita tónlist á Íslandi, og íslenskir tónlistarmenn sem eru að vinna stór verkefni í útlöndum gætu jafnframt séð sér hag í að koma með þau til landsins. Afleiðingin er aukin þekking í greininni, meiri umsvif og styrkari innviðir tónlistariðnaðar á Íslandi með sama hætti og við höfum séð vera áhrif laga um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

Ég veit af fjölmörgum verkefnum sem eru í burðarliðnum, ég get til að mynda nefnt það starf sem unnið er fyrir norðan í samstarfi menningarhússins Hofs, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og fleiri aðila þar sem verið er að taka upp til að mynda kvikmyndatónlist eftir Atla Örvarsson þar og mætti ætla að fleiri slík verkefni gætu orðið til eða komið hingað til lands ef þessi hvati væri kominn á.

Virðulegur forseti. Að þessu sögðu legg ég til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.