145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

679. mál
[16:10]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, lögum um stjórn fiskveiða og lögum um veiðigjald eða öflun sjávargróðurs í atvinnuskyni. Ég vil byrja á að taka það fram að ég tel mjög gott að við getum notað sjávargróður, þang og þara, í þessu tilviki til þess að auka fjölbreytni í atvinnumálum þjóðarinnar, svo þeim parti er ég fyllilega sammála. Eins og ég ætla að koma að í ræðu minni eru önnur atriði í málinu sem ég í það minnsta tel rétt að spyrja nokkurra spurninga um.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna að líkt og hæstv. ráðherra sagði sjálfur í máli sínu er nokkuð um liðið síðan þetta mál kom fram. Ég fletti því raunar upp og málinu var útbýtt hér 4. apríl. Það er fyrst núna og ef við teljum ekki þennan dag með sem er senn búinn hér á þingi þar sem þetta er síðasta málið sem er á dagskrá, þá eru fjórir þingdagar eftir af endurskoðaðri starfsáætlun Alþingis. Það gefur því augaleið að hér gefst ekki mikill tími fyrir hv. atvinnuveganefnd til þess að rannsaka málið og skoða, sé það vilji hæstv. ráðherra að málið klárist fyrir kosningar.

Það virðist vera sem það sé sett talsverð pressa og mikill hraði á að þetta mál verði klárað. Nú vill svo til að ég fór á fund í hv. atvinnuveganefnd með einungis örfárra mínútna fyrirvara, eins og stundum gerist í dagsins amstri á Alþingi, og þá kom einmitt sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið og var að kynna ýmis efnisatriði þessa frumvarps fyrir nefndarmönnum og það án þess að búið væri að mæla fyrir frumvarpinu. Það finnst mér benda til þess að það sé þrýstingur á að þetta mál fari hratt í gegnum þingið. Mér finnst ástæða til að staldra við það eitt og sér og setja spurningarmerki við þau vinnubrögð.

Nú er þetta vissulega ekki stærsta og flóknasta málið sem er verið að mæla fyrir á síðustu dögum þingsins. Það eru vissulega enn önnur stærri og miklu víðfeðmari og flóknari mál sem einnig er verið að setja á dagskrá síðustu dagana og ber þar kannski fyrst að nefna frumvarp um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem lúta m.a. að hækkun á lífeyrisaldri, sem og frumvarp um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sem bæði eru miklu stærri mál en þetta og flóknari að fjalla um. En engu að síður má segja að þetta mál verði hluti af stærri heild og safnast þegar saman kemur.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan er ég hlynnt því að við notum sjávargróður í atvinnuskyni en tel gríðarlega mikilvægt, líkt og þegar kemur að öðrum auðlindum okkar hér á landi eða við landið, að við förum við vel með auðlindina og vöndum okkur við að hún sé nýtt með sjálfbærum hætti.

Það kom fram í þeirri kynningu sem var haldin í hv. atvinnuveganefnd af hálfu embættismanna úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu að það sé á vegum Hafrannsóknastofnunar verið að vinna að rannsóknum á þara og þangi og eins og er tekið fram í texta með frumvarpinu þá eru núna rannsóknir í gangi en eitthvað í að niðurstöður komi úr því. Það var reyndar nefnt á fundi hv. atvinnuveganefndar, sem ég hef nokkrum sinnum vísað í, að einhverra niðurstaðna væri að vænta jafnvel strax í nóvember.

Mér þykir mikilvægt í svona máli að stigið sé varlega til jarðar og tel þess vegna að ef niðurstaðna er að vænta eftir rétt rúman mánuð, kannski einn og hálfan mánuð, sé betra að fara sér hægt, láta náttúruna njóta vafans og bíða eftir betri upplýsingum, því að það er um viðkvæmt lífríki að ræða.

Á það hefur svo einnig verið bent og ég fann m.a. grein á netinu á síðunni snæfellingar.is þar sem er bent á að það sem þar er kallað skógar sjávar, sem ég held að sé frekar fallegt orð yfir þang og þara, þeir séu undirstaða alls lífríkis í Breiðafirði og bent á að þar hrygni t.d. grásleppan og æðakollan ali unga sína í klóþangsbreiðunum og bent á að fari menn of geyst í þara- og þangtöku muni það raska tilveru þessa lífríkis.

Ég tel því að þótt auðvitað sé gott og mikilvægt að rannsaka það hversu hraður vaxtatími þangs er, líkt og Hafrannsóknastofnun er m.a. að rannsaka til þess til að mynda að vita hversu mikið megi taka af þessum gróðri hverju sinni og hversu lengi þurfi að hvíla svæði, þá verði að skoða þetta lífríki í stærra samhengi.

Mér hugnast því illa með tilliti til náttúrunnar að hér sé farið of geyst og ekki beðið eftir niðurstöðum úr rannsóknum sem eru alla vega að einhverjum hluta til svo að segja handan við hornið. Ég held að það yrði þessari atvinnugrein frekar til hagsbóta og hún verði líklegri til að geta blómstrað til framtíðar ef við vinnum grunnheimavinnuna vel. Það þýðir að bíða eftir í það minnsta þeim rannsóknaniðurstöðum sem er stutt í, þó svo að alltaf þurfi að halda áfram rannsóknum. Ég held að hér sé verið að byrja í raun á röngum enda með því að byrja á að fjalla um hvernig eigi að úthluta mönnum eða fyrirtækjum leyfum til að nýta auðlindina og miklu nær sé að byrja á rannsóknunum og hafa þannig grunninn undir eitthvað sem verður vonandi í framtíðinni blómstrandi atvinnugrein á hreinu.