145. löggjafarþing — 156. fundur,  23. sept. 2016.

umgengni um nytjastofna sjávar o.fl.

679. mál
[16:23]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið og fyrir að skýra málið enn frekar. Mér finnst það gott ef við erum í það minnsta sammála um að hér þurfi að fara varlega. (Sjútvrh.: Sammála þessu.) Það held ég að sé alla vega mjög dýrmætur byrjunarpunktur og er það alltaf þegar um viðkvæma náttúru er að ræða.

Líkt og hæstv. ráðherra nefndi einnig liggur fyrir að nýir aðilar vilja komast þar inn. Ég trúi því að þeir hljóti að fylgjast með því sem hér er gert ef þeir hafa áhuga á að koma þarna inn og ég er þeirrar skoðunar að þess vegna þurfi Alþingi í meðferð sinni á málinu að sýna það mjög skýrt að við viljum stíga varlega til jarðar. Ástæðan fyrir því að ég vek máls á þessu er einmitt sú að mér er alvara málsins ljós. Ég átta mig fyllilega á því að þetta getur skipt mjög miklu máli fyrir byggðarlög á Snæfellsnesi eða við Breiðafjörðinn þar sem þangtaka getur skipt miklu í atvinnulegu tilliti, en vil ítreka að það er einmitt þess vegna sem ég legg á það áherslu að rannsóknavinnunni sé vel sinnt áður en farið verður út í aðra vinnu því að það er einmitt þannig sem við getum byggt upp til framtíðar.