145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:03]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Hér hafa fallið mörg orð um það hvernig flokkarnir ætla að bæta hag okkar Íslendinga. En auðvitað eru orð ekki sama og efndir. Kosningaloforð hafa vakið verðskuldaða tortryggni. Loforð stjórnmálanna eru ekki ljót í eðli sínu en það er ljótt að svíkja þau. Ég veit ekki um neina spádómskúlu sem virkar en þó er til leið til þess að sjá fyrir um hegðun og gjörðir fólks, líka okkar stjórnmálamanna. Hún er einfaldlega sú að líta til þess sem viðkomandi hefur áður gert. Hegðun og aðgerðir í dag hafa besta forspárgildið á það hvað við munum gera á morgun.

Aðalatriðið í pólitík er að gera það sem maður segist ætla að gera. Það gerum við í Bjartri framtíð. Við höfum breytt aðferðum og vinnubrögðum í stjórnmálum. Við höfum verið brú á milli mismunandi sjónarmiða. Það hefur oft verið snúið því að pólitíkin er vön að skipa fólki í stríðandi fylkingar. Við höfum unnið þannig á þingi og við höfum unnið þannig í sveitarfélögum og það hefur breytt miklu. Björt framtíð er flokkur sem stendur í lappirnar, er trúr sinni meiningu í málum þar sem aðrir flokkar annaðhvort slægjast eftir atkvæðum eða hræðast atkvæðamissi. Þannig var það í skuldaniðurfellingunni sem Björt framtíð var andvíg. Hún var bruðl með skattfé almennings til að greiða niður sum verðtryggð lán á Íslandi. Ekki námslán hinna ungu heldur aðeins íbúðalán þeirra sem þegar höfðu komið sér þaki yfir höfuðið. Svona var þetta líka í búvörusamningunum þar sem Björt framtíð stóð einn flokka á móti. En aðrir greiddu leiðina fyrir rándýrum samningum um gamla Ísland.

Þá höfum við líka staðið fast á móti sérstökum skattaívilnunum sem standa í raun stóriðjunni einni til boða. Þarna er kostnaðinum alltaf velt yfir á aðra, hvort sem það er almenningur eða önnur fyrirtæki. Stóriðjan fær afslátt af sköttum og gjöldum, hún fær ódýrt rafmagn og línulagnir heim að dyrum. Hún fær meira að segja stundum jarðgöng, eins og dæmin sanna. Milljarðarnir fara úr ríkiskassanum, en hvar eru allir milljarðarnir sem áttu að koma inn í staðinn? Við í Bjartri framtíð viljum ekki þá stefnu. Ísland þarf hana ekki. Það er fjárhagsleg áhætta fólgin í henni og við erum að eyðileggja fyrir ferðamennskunni, sem er sú atvinnugrein sem veitir okkur mestar gjaldeyristekjur.

Björt framtíð hefur staðið vörð í mannréttindamálum, málefnum barna og málefnum ungs fólks. Við höfum líka verið leiðandi í innflytjendamálum því að við viljum fjölbreytt samfélag. Þeirri umræðu er langt í frá lokið. Í henni þarf að sýna kjark og þor. Þeir sem eru á móti aðstoð við flóttamenn bera ekki endilega hag Íslendinga fyrir brjósti. Þeim finnst réttlætanlegt að skilja eftir drukknandi börn í erlendum höfum. Það er ekki bara mannúðlegt, það er rétt að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn. Því fylgir líka samfélagslegur og efnahagslegur ávinningur. Það er beinlínis nauðsynlegt fyrir Ísland að fá fleira fólk hér inn til þess að vinna og standa með okkur að því að reka hér gott heilbrigðiskerfi og treysta góða innviði.

Björt framtíð hefur sýnt stefnu sína og styrk á kjörtímabilinu en ég er líka óhrædd við að tala um það sem betur hefði mátt fara. Björt framtíð er frjálslyndur flokkur en við vorum ekki nógu samstillt þegar áfengisfrumvarpið var hér til umræðu. Þá hefur okkur verið legið á hálsi að hafa ekki aðgreint okkur nægjanlega frá öðrum flokkum. Ef til vill stafar það af því að við höfum lagt okkur fram um að veita góðum málum brautargengi óháð flokkadráttum. Það breytir því þó ekki að við erum trú sannfæringu okkar en reynum ekki að höfða til allra, enda leiðir svoleiðis stefna til flatneskju og engra breytinga.

Björt framtíð er skipuð venjulegu fólki sem telur að með þátttöku sinni í pólitík sé það skylda sín að vinna í þjónustu fyrir almenning. Það eru aðrir sem sjá um sérhagsmunagæsluna. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur útgerðarinnar sem vill óbreytt ástand. Við, ólíkt þeim, viljum að þjóðin fái hærra verð fyrir sjávarauðlindina og viljum fara þá leið að bjóða upp kvóta á markaðslegum forsendum. Framsókn heldur sína varðstöðu um gamla Ísland og tjóðrar bændur og neytendur við meingallað kerfi sem virkar ekki vel fyrir neinn. Við, ólíkt þeim, og ólíkt Vinstri grænum, erum ekki hrædd við innfluttar matvörur og treystum bændum í samkeppni. Við, ólíkt Pírötum, viljum að listamenn og höfundar fái greitt fyrir vinnu sína sem dreift er á netinu. Það er tvískinnungur að samþykkja þjófnað eða siðferðisbresti á einum stað en fordæma hann annars staðar, eins og í skattaskjólum.

Björt framtíð var nýi flokkurinn við síðustu kosningar. En við komum ekki úr innsta hring stóreignarmanna sem telja sig hlunnfarna af skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins. Það hefur löngum talist slæm kaupmennska að versla gamalt vín á nýjum belgjum. Björt framtíð er frjálslyndur og grænn flokkur og við höfum sýnt með skýrum aðgerðum að við viljum kerfisbreytingar en ekki stöðnun. Við berjumst í þágu almennings gegn sérhagsmunum og við viljum halda þeirri baráttu áfram. Við höfum skýra sýn á betra samfélag og skýra sýn á leiðir til að ná þangað. Kosningar eru mikilvæg tímamót. Atkvæði ykkar er umboð til fjögurra ára. Nú er boltinn hjá ykkur. Eigið gott kvöld!