145. löggjafarþing — 157. fundur,  26. sept. 2016.

almennar stjórnmálaumræður.

[21:32]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegur forseti. Góðir landsmenn. Kosningarnar í næsta mánuði snúast fyrst og fremst um velferð í víðasta skilningi þess orðs og þær snúast um heimili landsins, þær snúast um það hvernig lífi við viljum lifa og ætlum að lifa, hvernig við viljum búa að börnum okkar, foreldrum, öðrum ættingjum og vinum. Þær snúast um hvernig samfélagi við viljum lifa í, hvernig við skiptum gæðum samfélagsins á heiðarlegan og sanngjarnan hátt. Á þessu kjörtímabili hefur náðst mikill árangur. Okkur hefur tekist að lækka skuldir heimilanna með markvissum aðgerðum á sama tíma og laun hafa almennt hækkað. Þetta hefur gjörbreytt stöðunni hjá flestum heimilum landsins. Staða þeirra er mun betri en fyrir þremur árum. Auðugt þjóðfélag verður alltaf að hugsa um þá sem minna mega sín, þá sem minna hafa á milli handanna en við hin. Við verðum að deila því sem við höfum milli þegnanna á heiðarlegan og sanngjarnan hátt. Aðeins þannig getum við lifað í sátt við okkur sjálf og umhverfi okkar.

Höfum eitt á hreinu. Það er ekkert sanngjarnt við það að stórir hópar fólks, aldraðir og öryrkjar, þurfi að lifa á innan við 200 þús. kr. á mánuði. Það er ekkert sanngjarnt við það að stór hluti þeirrar upphæðir sem því fólki er skammtað fari t.d. í lyf, oft lífsnauðsynleg lyf. Það er ekkert sanngjarnt við það að fólk eigi varla fyrir mat. Það eru alls ekki allir í þessum sporum, en þeir eru of margir.

Ég hef talað fyrir því í langan tíma að lágmarksgreiðslur til aldraðra og öryrkja verði ekki undir 300 þús. kr. Ég mun berjast fyrir því áfram. Sem betur fer finnst mér ákveðin viðhorfsbreyting sé að verða hjá þingmönnum og ég hef mikla trú á að hagur þessara fjölmennu hópa muni batna til muna á næstunni. Við sjáum strax ákveðnar og mjög jákvæðar breytingar í nýju almannatryggingafrumvarpi. Þar er verið að veita um 5 milljarða til viðbótar í greiðslur til eldri borgara. Þetta hefur ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks gert. Nú þarf að taka skrefið til fulls. Eldri borgarar eiga það svo sannarlega skilið. Þegar kemur að öryrkjum vil ég segja þetta. Það velur enginn að vera öryrki. Hættum að tala það fólk niður, sýnum því virðingu, bjóðum því fólki upp á mannsæmandi líf.

Kosningarnar snúast um heilbrigðiskerfi fyrir alla, ekki heilbrigðiskerfi sem færist sífellt í átt að einkavæðingu, heldur kerfi sem býður öllum þegnum sínum upp á góða heilbrigðisþjónustu, ekki að þjónustan miðist við það hvað hver einstaklingur getur borgað. Við verðum líka að taka greiðsluþátttökukerfið fastari tökum. Skref hafa verið tekin, en göngum lengra.

Að þessu sögðu vil ég benda á að núverandi ríkisstjórn hefur aukið framlög í heilbrigðiskerfið um tugi milljarða kr. á þessu kjörtímabili. Ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við heilbrigðiskerfinu í rúst. Búið var að naga það inn að beini í ríkisstjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna. Þessum flokkum var vissulega ákveðin vorkunn. Það varð jú hrun og mikill niðurskurður var nauðsynlegur. Höfum samt eitt á hreinu, á niðurskurðartímum verður að forgangsraða. Það er aldrei mikilvægara en á slíkum stundum. Það var gengið allt of langt í niðurskurði í heilbrigðismálum á síðasta kjörtímabili.

Kæru landsmenn. Gleymum því heldur aldrei að eitt fyrsta verk ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna var að skerða kjör eldri borgara. Það var gert í júlí 2009, nánast um leið og sú ríkisstjórn tók við. Kannski var niðurskurður nauðsynlegur, en það þarf ekki nokkur maður að segja mér að nauðsynlegt hafi verið að byrja á þeim sem höfðu það lakast í þjóðfélaginu. Það var ekki fallegt og það var ekki sanngjarnt.

Við verðum að huga að fleiru. Kosningarnar snúast líka um góða menntun fyrir börnin okkar, menntun sem við getum verið stolt af. Þjóð án menntunar er þjóð án framtíðar. Við verðum að stórauka framlög í menntakerfið og til rannsókna. Við verðum ekki samkeppnishæf ef við sinnum þeim málaflokki ekki betur en gert er.

Kosningarnar snúast líka um fleiri hluti. Framsóknarflokkurinn vill breytingar á fjármálakerfinu. Við viljum kerfi sem þjónar almenningi en hefur ekki bara þann tilgang að viðhalda sjálfu sér. Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir samfélagsbanka sem vinnur fyrir fólkið og hefur þann tilgang að byggja upp og styðja nærumhverfi sitt. Við höfum talað fyrir því að fara varlega í sölu banka. Sporin eru ekki glæsileg í þeim efnum.

Framsóknarflokkurinn vill taka á bónusgreiðslum fjármálastofnana. Það er aldrei hægt að réttlæta þessar greiðslur. Flokksþing Framsóknarflokksins hefur samþykkt ályktun mína um bann við bónusum. Því miður hefur það ekki orðið að veruleika í því stjórnarsamstarfi sem við höfum verið í. Ég hef líka lagt fram frumvarp um að tekið verði á kennitöluflakki. Það vita allir sem fylgjast með hvaða viðtökur það mál fékk í þinginu. Það þýðir lítið fyrir þá sem stóðu harðast gegn þessum málum og töluðu harðast gegn þeim að lofa bót og betrun korteri fyrir kosningar.

Við þingmenn sitjum ekki á þingi fyrir okkur sjálf. Við erum fulltrúar fólksins fyrir utan og okkur ber að hlusta á það. Uppstokkun fjármálakerfisins er nauðsynleg og hún er krafa fólksins. Við höfum þegar átt við orsakir og afleiðingar eins fjármálahruns.

Við höfum flokka á þingi sem vilja nánast algjört frelsi, jafnt í bankakerfinu og annars staðar. Það mun óhjákvæmilega leiða til annars hruns. Það segir sagan okkur. Vörumst málflutning lengst til hægri og lengst til vinstri í þessum efnum. Kjósendur hafa val í október. Þeir geta valið um áframhaldandi hagvöxt, áframhaldandi uppbyggingu, lágt atvinnuleysi og ábyrga fjármálastjórn sem ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hefur staðið fyrir. Þessi ríkisstjórn hefur ekki lokið öllum sínum málum, því fer fjarri eins og ég hef þegar rætt. En ríkisstjórnir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og síðan Sigurðar Inga Jóhannssonar hafa náð ótrúlegum árangri á þremur árum. Lokið mörgum risavöxnum verkefnum, þeim stærstu sem þessi þjóð hefur nokkru sinni staðið frammi fyrir og þau hafa gjörbreytt stöðu heimila landsins.

Hinn valkosturinn sem kjósendur hafa er óvissuferð í boði vinstri flokkanna og Pírata. Óvissuferðir geta vissulega verið skemmtilegar. Oftast byrja þær afar vel, en stundum getur hausverkurinn verið mikill daginn eftir. Við höfum oft farið í óvissuferðir vinstri flokkanna. Þær hafa allar endað illa. Við höfum ekki efni á slíku árið 2016. — Góðar stundir.