145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:03]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill greina frá því að á fundi þingflokksformanna og raunar líka í forsætisnefnd var það mat forseta að það væri harla ólíklegt að okkur tækist að standast þessa starfsáætlun í ljósi þess að það eru stór mál sem eru enn þá ýmist í nefndum, eða eins og hv. þingmaður hefur sagt, tvö mál sem við munum ræða í dag og umræðu verður haldið áfram um. Forseti vonast auðvitað til þess að unnt verði á næstunni að ná utan um það viðfangsefni sem við erum að glíma við, sem er að ljúka tilteknum málum. Því fyrr sem þau mál skýrast, þeim mun betur mun okkur ganga að vinna úr þeim málum.

Í dag er gert ráð fyrir því, eins og endranær á þriðjudegi, að fundur geti staðið til miðnættis og ef vel tekst til bindur forseti vonir við að unnt verði að ljúka dagskránni eins og hún liggur fyrir og taka síðan til við mál á morgun. Eins og öllum er kunnugt var gert ráð fyrir að þingfundir þessa vikuna hæfust alla jafna kl. 10.30. Sú undantekning var gerð á fundi í dag vegna óska þingnefnda að hefja ekki þingfund fyrr en kl. 11, en að öðru leyti er gert ráð fyrir að geta byrjað kl. 10.30. En forseti tekur undir það að mjög mikilvægt er að unnt sé að skapa skilning á því viðfangsefni sem fram undan er, hvaða mál sé unnt að klára og hvaða mál sé nauðsynlegt að klára.