145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ber mikla virðingu fyrir hæstv. forseta og tel að hann hafi sýnt mikla viðleitni til þess að tryggja að þingstörf fari fram með eðlilegum hætti. Að mörgu leyti hefur það gengið vel, bæði í vor og í haust. Þar hafa allir hv. þingmenn lagt ýmislegt á sig. Hér hefur ekki verið málþóf um nokkur mál. Hér hefur verið tekið málefnalega á flestum málum.

Það fór hins vegar svo að starfsáætlun var framlengd eins og hæstv. forseti nefndi. Nú fer kannski að styttast aðeins í þolinmæði hv. þingmanna þegar okkur er sagt að það þurfi að fara að afmarkað viðfangsefnið, eins og það er orðað af hæstv. forseta, og ná þurfi saman um hvaða tilteknu málum eigi að ljúka. Allt er þetta orðað með afar loðnum og óljósum hætti.

Herra forseti. Það eru þrír þingfundadagar eftir. Hæstv. forseti er örugglega algerlega sammála mér um það að við eigum að vera löngu búin að afmarka þetta „viðfangsefni“. Við eigum ekki að vera í fullkominni óvissu um (Forseti hringir.) hvað eigi að klára og hvað ekki, sérstaklega því að það er ekkert í þinghaldinu sem hefur gefið tilefni til þess að draga þingstörf úr hófi fram.