145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:07]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mér finnst þurfa að minna á að það var ríkisstjórnin sjálf sem ákvað að stytta kjörtímabilið og setti kosningadag 29. október. Þá liggur fyrir að þessi ríkisstjórn mun ekki ná að klára öll þau mál sem hún hefði gjarnan viljað klára. Mér finnst þetta svolítið skrýtinn veruleiki sem við erum í. Þegar hæstv. forseti talar um að það þurfi að klára tiltekin mál erum við að kalla eftir að fá að vita hvaða tilteknu mál það eru. Við ættum í raun að vera að hætta hér á föstudaginn eða á fimmtudaginn.

Ég vil líka benda á að ég geri ráð fyrir að það fari nú kannski eitthvað að þynnast hér í hópnum og er ekkert skrýtið. Við erum með þingmenn sem sinna risastórum kjördæmum og eru að fara í kosningabaráttu. Það er aðstöðumunur ef fólki er haldið hér fram að kosningum og getur ekki sinnt kosningabaráttu í sínum kjördæmum vegna þess að ríkisstjórnin er að vandræðast með þetta fram og til baka og virðist ekki geta haft samráð, hvorki sín á milli né við stjórnarandstöðuna. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég kalla eftir því að forseti taki þetta föstum tökum og við förum að sjá fyrir endann á þessu.