145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:08]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er himinn og haf á milli þess að taka sér raunverulegt dagskrárvald og hafa hemil á því flóði mála sem hér eru lögð fram og að vera einræðisherra. Því er ekki saman að jafna. Við skulum hafa það í huga að forseti hefur dagskrárvaldið. Mér finnst það ótrúlegt að enn eru að berast ný mál þrátt fyrir að þrír þingdagar séu eftir. Það eru enn að berast ný mál, forseti. Á ekki að fara að grípa í taumana? Hvernig eigum við að geta tekið þátt í málefnalegum umræðum þegar ekki neitt raunverulegt samráð er haft við minni hlutann og nefndaformenn vita ekki einu sinni sjálfir hvaða mál á að klára í nefndunum? Það er endalaust verið að kalla eftir álitum frá fólki úti í bæ og kalla inn gesti um mál sem enginn veit hvort eigi að klára eða ekki.