145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:09]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Það er hárrétt sem kom fram hjá hæstv. forseta að hann sagði það á fundi með þingflokksformönnum í gær að hann teldi útséð um að hægt væri að standa við starfsáætlun og ljúka fundi á fimmtudaginn, en hann var nú ekki einn á þeim fundi, þar voru þeir með honum sem hann hafði kallað til. Þeir mótmæltu allir og sögðu að þetta vinnulag gengi ekki. Hér ætti að klára á fimmtudaginn. Það væru stóru málin sem þyrfti að klára, haftamálin, skattsvikamálin og kannski einhver eitt eða tvö í viðbót. Það er vel hægt að klára þau fyrir fimmtudaginn. Hitt á bara að taka út af borðinu.

Virðulegi forseti. Við erum búin að vera, vil ég segja, til fyrirmyndar enda hrósar forseti sjálfur okkur þingmönnum æ ofan í æ. Við höfum ekki tafið (Forseti hringir.) þingstörf. Þessar tafir eru vegna þess að ríkisstjórnin er algjörlega (Forseti hringir.) máttlaus og stjórnlaus og veit ekki í hvorn fótinn hún stígur.