145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Eins og forseti fór yfir áðan þá hafa þingstörfin að mati allra verið ljómandi og ég er farinn að hafa verulegar áhyggjur af því að núna erum við að ræða hér á eftir frumvarp sem varðar 100 milljarða fjárútlát og starfsáætlun er greinilega komin úr skorðum. Við vitum ekki hvaða mál á að klára. Þá verð ég að segja eins og er að maður er farinn að sjá pínulítið eftir málefnalegheitunum sem er mjög hræðileg staða. Það er hræðilegt að vera í þeirri stöðu að sjá eftir einhverju slíku sem ætti nú að vera sjálfsagt í siðmenntuðum þingum, en auðvitað eins og við vitum öll er það bara ekki í raunveruleikanum. Það er mjög vond lexía. Ég vona að ég þurfi ekki að segja komandi þingmönnum míns flokks að vera alltaf með leiðindi og vera aldrei til friðs. Það væri mjög leiðinleg lexía, virðulegi forseti. Ég vona að ég þurfi ekki að veita hana. Ég hef nefnt þetta áður. Þetta er mikilvægt. Við þurfum að vita hvernig við eigum að forgangsraða okkar tíma. Það að forgangsraða tímanum illa og rangt kemur niður á starfinu. Það er vandamál. Stjórnar forseti þessu þingi eða er það ríkisstjórn?