145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:12]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst vera tvær hliðar á þessu máli. Það er annars vegar það sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson var að nefna hér áðan, að það er einhvern veginn sama hvað stjórnarandstaðan gerir, virðingarleysið er alltaf algert, hvort sem við erum hér hrópandi og gólandi á athygli eða tökum þátt í málefnalegum umræðum og málin renni í gegnum þingið eins og verið hefur undanfarið. Það skiptir bara engu máli, það á ekki að tala við okkur, okkur er sýnt fullkomið virðingarleysi.

Síðan er það hitt og það er hvernig í ósköpunum þessu þingi er stjórnað. Menn setja sér starfsáætlun um að 29. október eigi að kjósa, 29. september eigi þingi að ljúka, stór mál eru að koma inn í þingið og það hefur engin tilraun verið gerð til þess að setjast niður, eins og maður gerir sjálfur þegar maður er að stýra sínum eigin tíma og skipuleggja sinn eigin tíma, og meta það hversu stór verkefnin eru(Forseti hringir.) og hvort þau komast fyrir á tímaplaninu. Engin. (Forseti hringir.) Það er allt í tómu rugli hérna, virðulegi forseti. Við óskum eftir því að fara að fá yfirlit um það hvernig við ætlum að ljúka þessu.