145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:15]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Ég vil gera athugasemd við það að forseti taki sér ekki það vald sem honum ber. Forseti vill klára þetta þing með sóma, það veit ég. Ég veit að hæstv. forseti Einar K. Guðfinnsson vill ljúka þessu þannig að þingið haldi reisn í gegnum þessa lokadaga, ég veit það. En ég veit líka að við búum enn þá við þá stöðu að það er gasprað inn í svona umræðu hérna af ráðherrabekknum, að einstakir ráðherrar telja sig þess umkomna að vera með hálfkæring og gaspur af ráðherrabekknum. Hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson talar um nokkrar vikur í viðbót.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin er búin að vera. Það er Alþingi sem er það eina sem er í lagi hér. Það er Alþingi sem heldur sinni reisn. Það er Alþingi sem er að vinna sín verkefni vel og það er Alþingi sem hefur ákveðið sína starfsáætlun og henni lýkur á fimmtudaginn.