145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:16]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég er með hugmynd. Hvað ef virðulegur forseti setti einfaldlega ekki á þingfund fyrr en ríkisstjórnin væri búin að forgangsraða sínum málum? Þetta er afskaplega sjálfsögð krafa. Þetta er engin heimtufrekja. Það að vita hvaða mál eigi að klára og hvað ekki þegar tveir, þrír dagar eru eftir af þinginu. Þetta er orðið hlægilegt, virðulegi forseti. Það þarf að setja stólinn fyrir dyrnar á einhverjum tímapunkti. Ef ekki á þessum, þá hvenær? Hvenær nákvæmlega á þingið að ráða? Hvernig er það sem þessi samskipti við ríkisstjórn eiga að vera? Er þetta þannig að ríkisstjórnin ræður yfir þinginu? Er það þannig, virðulegi forseti? Sumir vilja meina að svo sé ekki, en manni sýnist það alltaf, þegar við lendum í slíkri stöðu enn og aftur. Þetta er svolítið fyrirsjáanlegt nema það að í þetta sinn er minni hlutinn að sögn allra búinn að vera með afbrigðum málefnalegur. Hvað eigum við að gera, virðulegi forseti? Eru einhverjar hugmyndir? Ég kom með tillögu handa virðulegum forseta. Ég velti fyrir mér hvort virðulegi forseti sé með tillögu handa okkur. Hvernig eigum við að bregðast við þessu? Hvað væri málefnalegast af okkur að gera núna?