145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

afgreiðsla mála fyrir þinglok.

[11:31]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti vill nú af því tilefni sem verið hefur í þessari umræðu vekja athygli á þeirri dagskrá sem við höfum fyrir framan okkur í dag. Auk óundirbúins fyrirspurnatíma erum við að ræða hér tvö mál í 1. umr. sem umræða hófst um um miðja síðustu viku og þá var ekki hægt að ljúka. Þar er um að ræða mál Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem er mál sem verið hefur árum saman, sumir segðu jafnvel áratugum saman, í undirbúningi, og komst niðurstaða í fyrr í þessum mánuði. Tengd því máli eru fjáraukalögin þar sem gert er ráð fyrir fjárheimildum til að unnt sé að uppfylla þennan samning. Önnur mál sem hér er um að ræða eru mál sem m.a. hefur verið kallað eftir, gjaldeyrismálin, losun fjármagnshafta, til 2. umr. Forseti telur að dagskráin sé að öllu leyti mjög eðlileg í dag.