145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

einkarekstur í heilsugæslunni.

[11:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil gera að umtalsefni frétt í Fréttablaðinu þar sem Ófeigur Tryggvi Þorgeirsson, svæðisstjóri fagstjóra lækninga hjá heilsugæslustöðinni í Grafarvogi, óttast fjársvelti heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu. Tilefnið er að verið er að breyta því hvernig heilsugæslustöðvarnar eru fjármagnaðar. Verið er að bjóða út heilsugæslustöðvar og setja inn aukinn einkarekstur. Þetta virðist vera þannig, alveg eins og við töluðum um þegar fjárlagafrumvarpið var afgreitt, að heilsugæslustöðvarnar eigi að fara að keppa um sjúklinga. Það á ekki að setja aukið fjármagn inn í kerfið heldur bæta við einkareknum stöðvum sem taka þá fjármagn frá þeim opinberu til þess að reka sig.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvað honum finnist um þá stefnu að einkavæða eða setja í aukinn einkarekstur heilsugæslustöðvar, sem er grunnþjónusta eins og augljóst er, og hvað honum finnist um að það sé hægt að gera án þess að taka um það stefnumótandi umræðu á Alþingi. Hver er stefna Framsóknarflokksins í einkarekstri á grunnstoðum heilsugæslunnar? Hver er framtíðarsýnin hvað þetta varðar? Hefur hæstv. ráðherra ekki áhyggjur af þeirri stöðu sem er að teiknast upp vegna útboðs og einkareksturs á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu?