145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

kjarabætur til öryrkja og ellilífeyrisþega.

[11:39]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langaði að eiga hér orðastað við hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra því að ég hjó eftir því í ræðu hennar í gær að hún væri að fara yfir ýmis verkefni á sviði síns ráðuneytis og nefndi það sérstaklega og sagði orðrétt, með leyfi forseta:

„Við erum vonandi að ná samkomulag við öryrkja til að tryggja þeim kjarabætur á borð við þær sem ellilífeyrisþegar fá með nýjum lögum um almannatryggingar.“

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í þessi orð því að við sem fylgst höfum með þessum málum utan frá höfum ekki heyrt af því að slíkt samkomulag sé í sjónmáli, þ.e. við vitum að öryrkjar ákváðu að taka ekki þátt eða sögðu sig frá þeirri vinnu sem var undirstaða almannatryggingafrumvarpsins sem hér er inni og hafa verið með tilteknar kröfur t.d. hvað varðar skerðingarprósentuna sem þau hafa lagt áherslu á að sé lægri en þessi 45% sem gert er ráð fyrir í almannatryggingafrumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra. Þau hafa lagt áherslu á frítekjumörkin og að setja sérstöku framfærsluuppbótina inn í tekjutryggingu og svo auðvitað krónutöluhækkunina, þ.e. að fá hækkun á lífeyrinum upp á 80–100 þús. kr. á næsta ári og líka afturvirka hækkun. Það eru kröfurnar sem ég hef eftir minni mínu án þess að vera sérfræðingur í þeim málum. Þess vegna vakti það athygli mína þegar hæstv. ráðherra sagðist telja að samkomulag væri í sjónmáli við öryrkja. Mig langar að biðja hana að upplýsa okkur hér í þinginu um hvort við megum eiga von á því samkomulagi og hvað felst í því.