145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

niðurgreitt innanlandsflug.

[11:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég beini til forsætisráðherra fyrirspurn sem heyrir kannski undir aðra ráðherra, en mig langar til að fá afstöðu hans og sýn í þessu máli. Það varðar innanlandsflug sem almenningssamgöngur. Austfirðingar hafa verið mjög duglegir að benda á hvað það háir fjórðungnum hve dýrt er að komast til Reykjavíkur með innanlandsflugi. Ef fólk keyrir er vegalengdin um 600–700 km.

Bent hefur verið á það, m.a. af Jónu Árnýju Þórðardóttur hjá Austurbrú, að til er skosk leið þar sem gagngert er farið í að niðurgreiða flugfargjöld sem hluta af almenningssamgöngum fyrir þá staði sem eru í ákveðinni fjarlægð frá þéttbýlisstöðum. Það er almennt viðurkennt, og við vitum það á Íslandi, að fólk þarf að sækja mikla þjónustu til Reykjavíkur. Þó að við viljum gjarnan byggja upp þjónustu á landsbyggðinni þá vitum við að mjög mikið af þjónustunni verður alltaf bundið við höfuðborgarsvæðið, sérfræðiþjónusta, stærstu menningarviðburðir og annað því um líkt.

Mér finnst þessi skoska leið sem hefur verið nefnd mjög áhugaverð. Hún miðast í raun við að niðurgreiða innanlandsflug til þeirra sem eru með lögheimili á staðnum. Við værum þá að tala um Austfirði í þessu samhengi en þetta ætti jafnvel við um Vestfirðina líka og jafnvel Norðurlandið. Það er bara eitthvað sem yrði að skoða. Auðvitað væri um að ræða einhverjar fjárhæðir en við setjum peninga í byggðamál á hverju ári og sumt reynist ekki endilega vel. Hérna eru heimamenn og íbúar á landsbyggðinni að leggja til leið sem mér finnst vera virkilega spennandi og mér finnst líka að við eigum að vera tilbúin að skoða og gera tilraunir með alls konar kosti. Þá er ekki þar með sagt að við ætlum að gera þetta um alla framtíð, en að við látum reyna á þetta. Mig langar að heyra hvað hæstv. ráðherra finnst um svona aðgerðir.