145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

tilfærsla málaflokka milli ráðuneyta.

[11:59]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ef ég á að skilja hæstv. forsætisráðherra rétt þá er allt í lagi að það sé tilfærsla á stórum málaflokkum og stofnunum á milli ráðuneyta út frá dyntum og áhuga einstakra ráðherra sem oftast sitja frekar stutt. Það finnst mér ekki góð formfesta. En ég er þó sammála hæstv. forsætisráðherra um að það er nauðsynlegt að hægt sé að færa meira til starfsfólk og fagþekkingu út frá þeim höfuðáherslum sem flokkar leggja á kjörtímabili. Mér finnst ekkert að því að bera okkur saman við Norðurlöndin og þá sér í lagi er kannski tilefni til að hlusta á þau orð og tilmæli eða ábendingar umboðsmanns Alþingis að lagafrumvörp eigi að vera betur undirbúin þegar þau koma inn til Alþingis og sú fagþekking sem heyrir undir ráðherrann betur nýtt.