145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

tilfærsla málaflokka milli ráðuneyta.

[12:00]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Forseti. Ég þakka fyrir þetta samtal og skil að við hv. fyrirspyrjandi erum sammála um að lykilatriði sé að annars vegar séu fagþekking og skilvirkni til staðar og að í lagi sé að færa til starfsfólk. Þess vegna var meðal annars breyting á lögum um Stjórnarráðið fyrr á þessu kjörtímabili, það var gert til að búa Stjórnarráðið undir sveigjanleika til að takast á við verkefni. Ég held að það hafi verið skynsamleg leið.

Af því að hér er minnst á samanburð við norrænu þingin þá minnist ég þess að hafa séð að umræður um og breytingar á frumvörpum sem koma frá framkvæmdarvaldinu á Norðurlöndunum eru miklu, miklu minni en hér á landi, sem hægt væri að túlka þannig að frumvörpin væru betur úr garði gerð, en það er líka hægt að túlka það þannig (Gripið fram í.) að framkvæmdarvaldið sé einfaldlega sterkara, að öflugri einingar séu í Stjórnarráðinu og þess vegna sé þingið minni þáttur í starfseminni sem ég veit ekki hvort er (Forseti hringir.) gott. Þetta er eitthvað sem við þurfum að ræða. En ég er alveg sammála (Forseti hringir.) því að það eru margar góðar fyrirmyndir sem við höfum séð á Norðurlöndunum sem viljum gjarnan bera okkur saman við.