145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:33]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðuna. Þar var komið inn á það og skýrt greinilega frá því hversu stórt og viðamikið þetta mál er. Ég held að við séum í raun öll sammála um að þetta er stórt mál því að það varðar lífeyrisréttindi fólks.

Hv. þingmaður tengdi í ræðu sinni aðeins við almannatryggingakerfið, þann part af því sem snýr að ellilífeyrisþegum sem fá borgað úr því kerfi. Nú liggur einnig fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingar á almannatryggingakerfinu en að mínu mati skarast þau mál mjög. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í það, en hún talaði um kerfisbreytingar. Nú er verið að leggja til kerfisbreytingar í tveimur ólíkum kerfum sem fara til tveggja ólíkra þingnefnda. Mér finnst svolítið ógnvekjandi að gera það vegna þess að í hvoru kerfi fyrir sig geta orðið ófyrirséðar afleiðingar. Ég spyr hvort ekki sé sérstök ástæða til þess að fara enn frekar yfir þetta og skoða þessi mál í samhengi til að við sitjum ekki uppi með það að vera búin að gera kerfisbreytingar á tveimur stöðum án þess að vita hvert samspilið er þar á milli.