145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:37]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég held einmitt að þessi hugmynd og í raun hin formlega tillaga sem hefur verið gerð um að þetta mál fari til milliþinganefndar sé mjög mikilvæg og að það sé líka brýnt, eins og hv. þingmaður sagði, að nefndin setjist heildstætt yfir þetta.

Það má bæta því við að svo er þriðja þingnefndin að fjalla um ákveðinn þátt lífeyrismála. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd er líka að fjalla um mál sem tengjast séreignarlífeyrissparnaði sem er auðvitað partur af því heildarkerfi sem lífeyriskerfið er. Það má eiginlega segja að myndin sé enn flóknari þegar við höfum allt undir.

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann út í fleiri áherslur sem milliþinganefnd þyrfti að hafa í huga. Bent hefur verið á að þessar breytingar muni að öllum líkindum koma ólíkt niður, bæði á kynjunum og líka á kynslóðunum. Er hv. þingmaður sammála mér í því að það séu enn ein rökin fyrir því að við verðum að gefa okkur tíma og skoða þetta? Því að afkimar og angar af þessum málum fara í svo gríðarlega margar og ólíkar áttir.