145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt að taka þessi mál heildrænt saman. Nú eru tvö mál er lúta að lífeyrisréttindum í efnahags- og viðskiptanefnd, eitt mjög stórt mál í velferðarnefnd og svo núna þetta í fjárlaganefnd. Það er ómögulegt á dögum sem þessum, þegar þingið er í fullkomnu stjórnleysi á lokaspretti þingsins, að taka upplýsta ákvörðun.

Mér finnst gjörsamlega óþolandi að verið sé að breyta lögum eins og það hafi ekki áhrif á alvörufólk. Það er bara ekki í lagi. Ég heyri mikið í fólki sem býr við erfið kjör og það er mjög óöruggt. Það býr við stöðugan kvíða út af því að það virðist sem þeir sem eru með excel-skjölin að reikna út sjái ekki að það eru manneskjur sem þurfa að búa við afleiðingar orða sem samþykkt eru hér á þingi.

Við þurfum ekki bara milliþinganefnd um þetta mál, það þarf að fara í umræðu úti í samfélaginu og tala við þá sem þurfa að lifa eftir þeim lögum sem samþykkt eru á Alþingi um þær breytingar sem eru yfirvofandi. Það er líka ljóst að því máli sem er í velferðarnefnd eiga ekki að fylgja neinir peningar. Þeir sem eru með algjörlega strípaðar bætur eiga enn og aftur að gleymast. Það er ólíðandi því að ekki voru vandræði að finna peninga í fjárlögum eða fjáraukalögum til að hækka laun efsta lags samfélagsins í opinbera geiranum. Á sama tíma virðast aldrei vera til peningar til að hjálpa þeim (Forseti hringir.) og styðja sem okkur ber að hjálpa og styðja og búa við kröppustu kjör í almannatryggingakerfinu.