145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[12:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Ýmsir sem hafa tekið til máls í umræðunni á undan mér hafa farið ágætlega yfir aðdraganda þess að þetta frumvarp varð til. Mér hefur heyrst á umræðunni að það sé í raun ekki neinn ágreiningur um að gera breytingar á lífeyrissjóðakerfinu heldur snýst umræðan fyrst og fremst um hraðann á þessu máli, að það eigi að keyra það í gegn á lokadögum þingsins án þess að tími gefist fyrir þá þingnefnd sem að lokinni 1. umr. fær málið í sínar hendur til að kafa rækilega ofan í málið, til að senda það út til umsagnar til þeirra sem málið varðar og fá síðan til sín gesti til að ræða málið.

Líkt og hefur verið rakið og komið inn á er þetta risastórt mál, risastórt hagsmunamál fólks því að það snýst um afkomu fólks þegar það hefur lokið starfstíma sínum á vinnumarkaði og snýst um tekjurnar sem fólk hefur til þess að framfleyta sér á efri árum. Þrátt fyrir að tekist hafi að gera samkomulag við ýmis stéttarfélög þeirra sem málið varðar þá er greinilegt að almennir félagsmenn þessara stéttarfélaga eru ekki á eitt sáttir með frumvarpið. Við þingmenn höfum fengið ýmsar athugasemdir í tölvupósti á síðustu dögum þar sem hin ýmsu félög, til að mynda ýmis félög kennara í ólíkum grunnskólum landsins, hafa sent okkur ályktanir sínar. Það tel ég eitt og sér vera ágætisrök fyrir því að flýta þessari vinnu ekki um of og alls ekki að keyra málið í gegn og ætla að klára það á lokadögum þingsins en samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru einungis þrír dagar eftir til stefnu. Það gefur augaleið að þá er ekki hægt að senda málið út til umsagnar eða fá gesti. Það eru að mínu mati ein rök fyrir því að láta málið bíða þar til nýtt þing kemur saman eftir kosningar. Ég held að vegna þess langa aðdraganda sem þetta mál hefur átt þá sé alveg óhætt og málinu bara til góða að það fái svolítinn tíma.

Önnur ástæða fyrir því að ég tel að rétt sé að stíga varlega til jarðar er að hv. velferðarnefnd er núna með til umfjöllunar frumvarp um breytingu á lögum um almannatryggingar þar sem einnig er verið að leggja til kerfisbreytingar á lífeyristöku en þá að því sem snýr að almannatryggingakerfinu. Ég varð fyrir dálitlum vonbrigðum þegar ég las frumvarpið um LSR og fylgiskjölin með því að ekki virðist hafa verið tekið neitt tillit til eða tekið mið af því sem lagt er til í frumvarpi um breytingu á lögum um almannatryggingar. Þessi tvö kerfi skarast auðvitað því sem betur fer er það svo að flestir lífeyrisþegar eiga sín réttindi í lífeyrissjóðum, en sumir fá að auki einnig greiðslur úr almannatryggingakerfinu. Breytingar á öðrum staðnum eða í öðru kerfinu geta því haft áhrif í hinu kerfinu. Þess vegna þarf að mínu viti að skoða þessi mál í samhengi.

Líkt og bent hefur verið á er svo þriðja málið sem einnig kemur inn á lífeyrisréttindi fólks til umfjöllunar í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þar sem verið er að fjalla um breytingar á séreignarlífeyriskerfinu. Saman mynda þessi þrjú kerfi framfærslu fólks þannig að öllu alvarlegri og mikilvægari verða málin nú kannski ekki sem við ræðum á Alþingi. Það er erfitt að finna eitthvað sem kemur beinna við fólk en fjármunir og tekjurnar sem fólk hefur til ráðstöfunar og til þess að lifa lífinu. Þetta þurfum við auðvitað allt að skoða í samhengi.

Ég hef áhyggjur af því eins og ég sagði að kerfisbreyting á einum stað geti leitt til breytinga í öðru kerfi og vegna þess að þetta eru oft flókin kerfi sem eru undir þá geta áhrif breytinganna verið ófyrirséð. Mér finnst þess vegna mikið umhugsunarefni hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt að fara í kerfisbreytingar á mörgum kerfum á sama tíma, því þá er erfiðara að hafa stjórn á ólíkum breytum og sjá fyrir hvað í raun muni gerast þegar þetta allt leggst saman, að ekki sé talað um þegar ekki hefur verið gerð nein tilraun til að greina áhrifin í samhengi.

Ég tek því heils hugar undir þá tillögu sem sett hefur verið fram að milliþinganefnd verði skipuð og taki við málinu og skoði þessi mál í samhengi og leggi mat á hvort það sé skynsamlegt að fara í allar þessar kerfisbreytingar á sama tíma og þá eftir atvikum að leggja mat á hvar þurfi að stíga sérstaklega varlega til jarðar og hverju þurfi að fylgjast sérstaklega með. Ég held nefnilega að það sé ekki spurning að þær breytingar sem verið er að leggja til á bæði lífeyrissjóðakerfinu og lífeyrisgreiðslum í almannatryggingakerfinu muni hafa ólík áhrif á ólíka samfélagshópa. Í frumvarpi um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sem við ræðum hér er lagt til að lífeyristökualdur fólks verði hækkaður úr 65 árum í 67 ár. Í frumvarpinu um breytingu á lögum um almannatryggingar er hins vegar lagt til að lífeyristökualdur í því kerfi hækki úr 67 ára og upp í sjötugt, í áföngum þó, á löngum tíma. Samspilið milli þessara tveggja breytinga er eitt af því sem þarf að skoða.

Okkur þingmönnum hefur borist tölvupóstur frá formanni Sjúkraliðafélags Íslands þar sem bent er á að vegna erfiði starfsins geti sjúkraliðar ekki starfað til 67 ára og þeir muni því þurfa að halda áfram að fara á lífeyri 65 ára. Þar sem gert er ráð fyrir auknum sveigjanleika í það minnsta þegar kemur að almannatryggingakerfinu gæti þetta verið mögulegt en afleiðingarnar af því að fara fyrr á lífeyri væru lækkaðar greiðslur til frambúðar. Afleiðingin verður sú að þeir sem hafa starfað alla starfsævina á launum sjúkraliða, sem ég held að við getum flest verið sammála um að þeir séu ekkert ofhaldnir af, þurfa vegna þess hversu líkamlega erfitt starfið er að hefja lífeyristöku fyrr og búa þar með áfram við lágar tekjur sér til framfærslu.

Það liggur alveg fyrir og er meira að segja viðurkennt að breytingar á lífeyristökualdri fólks munu hafa þær afleiðingar að örorkulífeyrisþegum mun fjölga. Staðan er sú að nýgengi örorku er hvað hæst meðal kvenna sem oft á tíðum hafa unnið hjá ríkinu við erfið og slítandi störf en þó ekki á neitt sérstaklega háum tekjum. Það er hægt að nefna stórar kvennastéttir svo sem kennara, hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða sem ég kom að hér áðan. Þetta er auðvitað einn risastór þáttur í því sem þarf að skoða og okkur alþingismönnum ber skylda til þess að fara verulega vel yfir hvernig þetta muni koma út og einmitt hjá þessum stéttum er svo greinilegt að samspil kerfanna tveggja skiptir alveg gríðarlega miklu máli og eru að mínu viti enn ein rökin (Forseti hringir.) fyrir því að við eigum að gefa okkur tíma, það á að skipa milliþinganefnd. Líkt og ég hef farið yfir og fleiri hv. þingmenn hafa í sínum (Forseti hringir.) ræðum farið yfir þá eru fjölmörg efni sem slík nefnd þyrfti að taka til skoðunar.