145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:09]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þingið hefur starfað ótrúlega vel, bæði í vor og fram á sumar og eins núna eftir að það kom aftur saman eftir sumarhlé. Hér hafa verið afgreidd stór, mikilvæg, oft og tíðum flókin mál þar sem gerðar hafa verið málamiðlanir, ólík sjónarmið hafa verið sætt og til lykta leidd. Það höfum við gert hér í þinginu.

Núna hins vegar þegar einungis þrír þingdagar eru eftir, eða eiginlega frekar tveir og hálfur, af starfsáætlun Alþingis stendur það upp á hæstv. ríkisstjórn að koma með forgangsmál sín og segja hvað hún leggur áherslu á að klára. Það hefur nefnilega ekki staðið á okkur, óbreyttum þingmönnum, (Forseti hringir.) að ganga svo beint til verka, en núna standa spjótin á hæstv. ríkisstjórn.