145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:15]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað að því leytinu til að starfsáætlun hefur nú legið fyrir um talsvert skeið. Öllum hefur verið ljóst hvenær ætlunin var að ljúka þinginu. Hin framlengda starfsáætlun var gerð að frumkvæði hæstv. forseta sem væntanlega hefur gert hana í samráði við meirihlutaflokkana, ríkisstjórnarflokkana. Ég verð að segja að það kemur mér á óvart í ljósi þess að hér hafa þingstörf gengið greiðlega allt frá því að þing hófst hér aftur um miðjan ágúst, hér hefur verið tekið málefnalega á öllum málum, og mér eiginlega alveg óskiljanlegt af hverju ekki er löngu búið að setja niður síðustu dagana í starfsáætlun. Því miður sýnist mér það vera vilji meiri hlutans að stefna hér málum í óefni, hvaða mögulega tilgang sem meiri hlutinn gæti haft með því, þ.e. að halda hér öllum í eins mikilli óvissu og unnt er um hvernig ljúka eigi þingstörfum, og koma þannig í veg fyrir að við getum lokið þessu þingi með (Forseti hringir.) sæmandi hætti fyrir okkur öll, sem ég hélt að ætti að vera metnaðarmál okkar allra.