145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:21]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mig langar líka að nefna það fyrst enginn annar hefur nefnt það að við erum að ganga inn í kosningar eftir mánuð og það skiptir máli fyrir lýðræðið í landinu og fyrir kjósendur í landinu að stjórnmálamenn hafi tíma til að kynna sig og sín málefni og í það minnsta að þeir viti hvaða tíma þeir munu hafa til þess og hvort þeir muni hafa tíma til þess.

Það er hvorki sanngjarnt gagnvart þingmönnum meiri hlutans né minni hlutans að hafa þetta í óvissu. Það er ekki heldur sanngjarnt gagnvart kjósendum. Það er ekki eigingjörn ástæða, það er í alvörunni mikilvægt að stjórnmálamenn hafi svigrúm, alla vega að þeir viti hvort þeir muni hafa svigrúm til að kynna sig og málefni sín í komandi kosningum. Ég vek athygli á því að ég er sjálfur ekki í framboði þannig að það eru ekki hagsmunir mínir sem þingmanns sem ég er að hugsa um heldur mínir hagsmunir sem kjósanda. Kjósendur hafa rétt á því að þinginu sé sýnd meiri virðing af virðulegum forseta (Forseti hringir.) en þessi.