145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið fram og að tekist hafi að koma því í framlagningarhæfan búning. Ég verð þó að viðurkenna að það eru mér mikil vonbrigði hversu seint það kemur fram. Það getur mögulegt teflt því í tvísýnu að við náum að afgreiða það fyrir kosningar. Þetta er mál sem við höfum mörg hver lengi borið fyrir brjósti vegna þess að það felur í sér samræmingu til fulls á lífeyrisréttindum á almennum og á opinberum markaði á þann veg að réttindin eru ekki samræmd niður á við heldur upp á við að því marki sem hægt er miðað við að kerfið sé sjálfbært.

Breytingarnar á lífeyriskerfinu frá 1997, þegar A-deildin var sett á fót, hafa að flestu leyti gefist vel en það hefur þó orðið þannig, vegna þess að í kerfinu eins og það er núna er ekki um að ræða aldurstengda ávinnslu, að halli hefur myndast á A-deildinni sem nú þegar er orðinn umtalsverður og fer vaxandi. Með kerfinu frá 1997 var gamla kerfið lagt af, sem nú er í B-deild sjóðsins, og það kerfi er nú þegar með halla upp á nærri 500 milljarða kr. Það er óskaplega mikilvægt, og okkur á að duga að horfa til reynslu nágrannalanda okkar af viðureign við fjármálaáföll, að við höfum lífeyriskerfi sem er sjálfbært, sem byggist á ávinnslu og á eignir í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á aldurssamsetningu þjóða í hinum vestræna heimi þar sem þeim fer fjölgandi sem fara á eftirlaun og fækkar í yngri kynslóðum.

Kerfi okkar í lífeyrissjóðum er öfundsvert og satt að segja til fyrirmyndar víða um lönd og er til mikillar sveiflujöfnunar í efnahagsáföllum og er nýbúið að standa mjög vel af sér heilt fjármálahrun. Það er alveg ótrúlegt að ef ekki hefði komið til verðtryggðrar réttindaaukningar, vegna aukinnar verðbólgu í hruninu, þá var tap alls lífeyriskerfisins á Íslandi af heilu fjármálahruni innan við 10%, sem segir alveg ótrúlega merkilega sögu um þol þessa kerfis til að takast á við áföll og vera til sveiflujöfnunar í samfélaginu.

Það má síðan endalaust velta fyrir sér frekari breytingum á lífeyriskerfinu og endurskoðun á því, fjölda lífeyrissjóða, gerð þeirra o.s.frv. Sjálfum finnst mér nú að réttasta næsta skref, eftir að við erum búin að samþykkja þessar breytingar hér, og þar með koma á einu réttindaávinnslukerfi jafnt fyrir opinbera markaðinn og einkamarkaðinn, og rökréttasta leiðin væri að sameina lífeyriskerfið með þeim hætti að við mundum breyta því á þann veg að allir sem mundu byrja að vinna á morgun mundu borga í nýjan lífeyrissjóð. Þannig yrði það næstu 20 árin, þá yrði honum lokað og þá yrði opnaður nýr lífeyrissjóður sem allir sem færu út á vinnumarkað mundu borga í í 10 ár og svo koll af kolli, þannig að við værum alltaf með fimm til sjö sjóði í gangi, en þeir væru þar af leiðandi með mjög ólíka fjárfestingarstefnu. Ef það er einhver veikleiki í lífeyriskerfinu í dag er hann sá að ef ein beljan mígur þá verður öllum mál. Ef einn lífeyrissjóður stekkur á fjárfestingarkost þá koma þeir gjarnan allir og ef einn hafnar fjárfestingarkosti þá hafna þeir gjarnan allir. Það gæti verið mjög æskilegt fyrir fjölbreytni í fjárfestingarákvörðunum að hafa ólíka sjóði með ólíkan áhættuprófíl þar sem sjóðirnir sem væru með félaga á efri árum væru varkárari í fjárfestingu, en þeir sem væru með yngri félaga gætu tekið meiri áhættu í sínum fjárfestingum.

Þegar niðurstaða er fengin í flókið mál eins og þetta þá tekur það langan tíma. Unnið hefur verið að þessu máli alveg frá hruni, að reyna að finna lausnir sem gætu orðið til þess að samræma réttindin og binda enda á hallarekstur A-deildarinnar. Nú er sú niðurstaða fengin og það er margt sem hjálpar til við það. Það eru peningar sem við fáum vegna samninga við kröfuhafa sem skapa smurolíu til að láta þetta mál virka vegna þess að ríkið á allt í einu fé til þess að setja þarna inn til að loka hallanum. Þá er það mjög eðlileg og rökrétt niðurstaða að hallareksturinn geti ekki heldur haldið áfram.

Ég heyri áhyggjur úr ranni ríkisstarfsmanna af því hvort menn séu að kasta frá sér réttindum út á óljósan ávinning. Í þeim samningum sem hafa átt sér stað um heildarsamkomulag á vinnumarkaði er gert ráð fyrir því að opinberir starfsmenn fái hlutdeild í launaskriði á almennum markaði. Það hefur ekki áður verið með jafn skýrum hætti sett inn í forsendur heildarsamkomulags um launakjör á almennum markaði. Ég held að rétt sé að fara frekar þá leið að bæta laun opinberra starfsmanna og hafa þau samkeppnisfær við hinn almenna markað, auðvelda þannig fólki að fara á milli hins opinbera og hins almenna markaðar yfir starfsævina, frekar en reyna að vera að búa til einhvern hvata með lífeyrisgulrót eða með gulrót sem felst í betri lífeyriskjörum á hinum opinbera markaði. Það er kostnaður sem enginn veit á endanum fyrir fram hversu mikil verður, er mjög erfitt að áætla og er mjög ógagnsær.

Ég held einfaldlega að við þurfum að horfa á það líka að tækifærið til að breyta er núna vegna þess að við höfum fé sem hægt er að leggja í þetta sem þarf að koma í lóg og mjög mikilvægt að hægt sé að nýta til að valda ekki þenslu á þessum tímapunkti; besta leiðin er að koma fénu fyrir í lífeyrissjóðunum. Það er líka mikilvægt að hafa í huga að ég held að það sé engin framtíð í því fyrir opinbera starfsmenn að halda áfram að gera út á réttindi sem eru í raun akademísk frekar en raunveruleg. Ég held að það sé betra að semja um úrlausn og endurgjald fyrir réttindi en halda áfram hallarekstri á lífeyrissjóðum, því að á endanum mun sá tími koma, ef ríkið stendur frammi fyrir mörg hundruð milljarða og enn fleiri hundruðum milljarða gati en það stendur þó frammi fyrir nú, að verkefnið vaxi okkur einfaldlega yfir höfuð og að þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa talið sig eiga gætu reynst orðin tóm eða ekki raunveruleg þegar á hólminn er komið, vegna þess að samfélagið standi einfaldlega ekki undir þeim.

Ég held þess vegna að allt mæli með því að feta áfram þennan veg. Ég vil hrósa forustumönnum í stéttarfélögum opinberra starfsmanna fyrir hugrekkið og að hafa fetað þessa leið áfram sem og aðilum vinnumarkaðarins fyrir að vilja feta nýja leið. Ég held að það skipti okkur öll miklu máli að skapa heilbrigðari og betri grunn fyrir kjaraviðræður í framtíðinni og að betra samræmi verði milli launakjara á hinum almenna markaði og hinum opinbera. Það er líka sérstaklega mikilvægt að ganga frá þessu núna, ekki bara vegna framlagsins sem von er á frá ríkinu — og eru peningar sem vaxa ekki á trjánum, við skulum orða það þannig; stærðargráða upp á nærri því 100 milljarða sem liggja á lausu er eitthvað sem vex ekki á trjánum og við getum ekki gengið að sem vísu eftir ár eða tvö.

Hin ástæðan fyrir því að skynsamlegt er að gera þetta núna er að það er auðvitað allt, út frá almennri hagþróun í samfélaginu, sem bendir til þess að á næstu árum sé fram undan mjög mikið launaskrið á hinum almenna markaði. Það er því mjög mikilvægt að opinberir starfsmenn fái strax hlutdeild í því.

Virðulegi forseti. Það er sérkennilegt að standa hér í ræðustól sem stjórnarandstöðuþingmaður og finna lítinn löst á því máli sem maður er að ræða. En eins og ég sagði í upphafi er lösturinn að mínu viti sá að málið kom seint hér inn. Ég hef áhyggjur af því að ekki gefist færi til þess að ljúka því með vönduðum hætti hér í þinginu. Ég held að við berum öll ábyrgð á því að gæta þess að þetta mál dagi ekki uppi eins og hvert annað mál sem engu máli skiptir. Þetta er mál sem er mjög í þjóðarhag að lúkning fáist á. Það er stórhættulegt fyrir okkur að halda áfram vísvitandi með hallarekstur á opinberu lífeyrissjóðakerfi, það mun aldrei fara vel. Þess vegna hvet ég okkur öll til að nálgast það verkefni af sanngirni og sáttfýsi að finna farsælan farveg fyrir þetta mál á þeim fáu dögum sem eftir lifa af starfstíma þingsins.