145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:37]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú hef ég ekki lesið lögin um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins lengi, en hef svo sem engar forsendur til að gera athugasemdir við uppsetningu á lagafrumvarpi eða greinauppbyggingu. Mér finnst efnið skipta meira máli og geng út frá því að þeir lögfræðingar sem þetta hafa samið hafi unnið vinnuna sína vel. Ég hef ekki orðið var við annað í fjármálaráðuneytinu en þar vinni menn vinnuna sína ágætlega. Grundvallaratriðið er að þetta eru ekki mjög stórar eða víðtækar breytingar. Það er fyrst og fremst að komið verði á aldurstengdri réttindaávinnslu í A-deildinni. Þegar kerfinu var komið á 1997 voru gerðar býsna margar breytingar til að færa það í áttina til hefðbundins ávinnslukerfis eins og almennt er á hinum almenna vinnumarkaði. Það er síðan mjög mikilvægt að verið sé að auka réttindin upp á við en ekki lækka þau niður í það sem þau voru á hinum almenna vinnumarkaði, með það að markmiði að lífeyrisréttindin verði á endanum 76% af meðalævitekjum. Það finnst mér vera mikilvægasta atriðið í þessu máli.