145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir því að ekki hafi kannski allir slegið þessu í skjal eins og sumir gera, svokallað „track changes“-skjal, en þetta blasir svolítið við ef maður gerir það, maður sér það auðvitað ekki í frumvarpinu sjálfu, þannig að ég hef fullan skilning á því.

Annað sem ég velti svolítið fyrir mér, kannski í sambandi við seinni hluta þess sem ég er að íhuga, þ.e. hvort þetta sé í raun og veru mál sem er hluti af einhverri lengri tíma vegferð. Hér er auðvitað um að ræða óheyrilegar upphæðir, alveg ótrúlegar upphæðir. Ég hef reyndar aldrei séð þvílíkar upphæðir í þingmáli á þessu kjörtímabili og dreg ekki úr vandanum, heldur þvert á móti geri ég ráð fyrir því, eins og kemur fram í greinargerð, að þetta séu svakalegar upphæðir sem hljóta að vera þarna settar fram af nauðsyn. Ég velti fyrir mér hver áhrifin yrðu að bíða með málið fram á t.d. næsta þing — ég ætla reyndar ekki að stinga upp á því að þetta fari í milliþinganefnd, það er víst eitthvert úrræði sem hentar kannski ekki öllum málum, kannski ekki þessu — en mér þykja þetta svakalegar upphæðir. Við erum hérna á lokadögum þingsins og mér finnst svolítið skrýtið að vera að afgreiða málið hér og nú. En að sama skapi finnst mér að þetta hljóti að vera mikilvægt og velti fyrir mér hvaða áhrif það hefði að fresta málinu eða hvort einhver tifandi tímasprengja sé í þessu máli sem ég hef ekki enn komið auga á.

En í greinargerðinni kemur fram, með leyfi forseta:

„Ljóst er að verði frumvarp þetta lögfest þarf að gera ráðstafanir til að leggja LSR til mikla fjármuni, nálægt 100 milljörðum kr., sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í gildandi fjárlögum, …“

Þetta er náttúrlega svakaleg upphæð. Þetta hlýtur að skipta verulegu máli. Það hlýtur að vera góð ástæða fyrir því að menn ætli í þessa vegferð núna.