145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:41]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað áhyggjuefni mitt, eins og ég rakti í ræðunni, að málið komi svona seint hingað inn og að ekki vinnist tími til að koma þessu þjóðþrifamáli almennilega í gegn. Ég skil hætturnar við að það verði ekki afgreitt núna. Það er augljóslega sú hætta að hér er gert ráð fyrir, eins og hv. þingmaður sagði, tæplega 100 milljarða greiðslu inn í A-deildina af fé sem núna er til. Við erum að fara í kosningabaráttu og það hefur nú gerst áður að menn lofi 100 milljörðum í einni kosningabaráttu, meira að segja lofa menn stundum 300 milljörðum eins og frægt var í síðustu kosningabaráttu. Mér finnst ekkert endilega gott að vita af þessu fé óráðstafað með óskuldbindandi hætti. Ég sé alveg kostinn í því að múra þetta fé inn núna, fyrir kosningar. Fjárhæðin er auðvitað bara afleiðing af hallarekstrinum. Ef við gerum þetta ekki núna og frestum málinu verður hallareksturinn meiri og við þurfum þá, hafandi kannski ekki þetta fé á síðari stigum, að borga meiri fjárhæðir þar inn. Ég sé ekki alveg miðað við fjárhæðirnar, um 100 milljarða, hvaðan á að fá það fé ef ekki í gegnum svona einstakt happ eins og við höfum verið að upplifa vegna samninga við erlenda kröfuhafa. Það að fresta málinu og ætla að taka á þessu síðar held ég að sé allra, allra versta niðurstaðan. Hvort það er lífsnauðsynlegt að það afgreiðist á þessu þingi eða hægt verði að finna því einhvern umbúnað til að það leysist á nýju þingi ætla ég ekki að fullyrða um núna, en það er stórvarasamt að ætla að vísa málinu inn í framtíðina þegar loksins er búið að nást samkomulag við öll (Forseti hringir.) heildarsamtökin og við búum svo vel að eiga fé sem aldrei hefur áður verið hægt eða verið tiltækt til að skapa sem smurolíu (Forseti hringir.) fyrir samkomulag í þessu máli.