145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Páli Árnasyni fyrir ræðu hans og get tekið undir ýmislegt sem þar kom fram. Ég held að við séum öll sammála um mikilvægi þess að lífeyriskerfið sé sjálfbært og við séum líka öll sammála um að það þarf að búa vel um hnútana vegna þess að þetta er svo gríðarlega mikilvægt mál. Mér fannst áhugaverð sú hugmynd sem hv. þingmaður setti fram um að allir ættu að borga í sama sjóðinn í tíu ár, síðan ætti að loka honum og stofna nýjan sjóð sem yrði svo borgað í. Ég verð bara að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt þá hugmynd áður þannig að það var alveg nýtt í mínum eyrum. Mér fannst þetta áhugavert og langar að spyrja hv. þingmann aðeins nánar út í þetta. Er þetta hans hugmynd eða eru til einhvers konar fyrirmyndir að þessu? Ég ætla ekki að leggja mat á það núna hvort mér finnist hugmyndin góð eða slæm, en mér fannst hún í það minnsta athyglisverð. Fyrir mér er á henni nýjabrum.

Hins vegar langar mig að spyrja hv. þingmann út í orð hans um að tækifærið sé núna til þess að breyta og finna farsæla lausn á þeim fáu starfsdögum sem eru eftir af þinginu, einmitt vegna þess að við höfum þessa 100 milljarða tiltæka akkúrat núna. En eru það ekki líka ákveðin rök fyrir því að það þarf að vanda mjög til verka í þingnefnd þegar kemur að þessu máli vegna þess að þetta eru svo gríðarháar upphæðir, (Forseti hringir.) þetta eru svo gríðarmikilvæg mál fyrir fólk? Erum við ekki í svolítið erfiðri stöðu (Forseti hringir.) einmitt vegna umfangs málsins og hins stutta tíma?