145. löggjafarþing — 158. fundur,  27. sept. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

873. mál
[14:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er auðvitað fullkomlega eðlilegt að reyna að finna leið til þess að gefa þeim færi á að tjá sig sem eru ósáttir við þetta samkomulag. Auðvitað er það hlutverk þingnefndar að skapa svigrúm til þess. Ef það næst ekki fyrir þinglok núna verður náttúrlega ekki hægt að afgreiða málið. En ég velti því fyrir mér hvort það sé mögulegt. Menn þurfa þá líka að vera lausnamiðaðir til að það geti gengið.

Vandinn sem ég sé við þær athugasemdir sem ég hef séð frá einstökum hópum opinberra starfsmanna sem eru ósáttir við samkomulagið, er að ég sé enga tillögu um aðra lausn. Hver er valkosturinn? Að taka ekki við peningunum sem eru núna á lausu vegna þess að þeir koma frá kröfuhöfum og halda áfram hallarekstrinum í fullvissu þess að alltaf verði til reiðu einhverjir 100 milljarðar kr. í ríkiskassanum sem menn séu á hverjum tíma tilbúnir að setja inn í gat til þess að viðhalda mismun í lífeyriskjörum? Ég sé ekki valkostinn ef við erum á annað borð þeirrar skoðunar að það eigi að samræma lífeyrisréttindi, og ég er bjargfastlega þeirrar skoðunar. Ég barðist eins og ljón gegn því kerfi sérréttinda sem var hér um þingmenn og ráðherra þegar ég kom inn á Alþingi, og með sama hætti hef ég viljað tryggja fólki á almennum vinnumarkaði sambærileg lífeyriskjör og fólki í opinberri þjónustu. Ef við erum þeirrar skoðunar að það sé mikilvægt þá er þetta leiðin áfram. Eins og alltaf þegar menn gera samninga eru einhverjir sem vildu ganga lengra. Mér finnst alltaf og hef alltaf sem verkalýðssinni leitast við að standa að baki forustu stéttarfélaga sem axlar ábyrgð af þeim valkostum sem hún stendur frammi fyrir og metur heildarhagsmunina með yfirveguðum hætti. Ég hyggst gera það í þessu máli líka og ítreka hrósyrði mín (Forseti hringir.) í garð forustu stéttarfélaga opinberra starfsmanna sem að þessu hafa staðið.